Þekktu rauðu ljósin- Soroptimistar hafna ofbeldi
„Þekktu rauðu ljósin - Soroptimistar hafna ofbeldi” er slagorð 16-daga átaksins sem Soroptimistar á Íslandi leggja nú upp í gegn kynbundnu ofbeldi. Í ár beinum við athyglinni sérstaklega að forvörnum og fræðslu.
Átakið, sem leitt er af Sameinuðu þjóðunum og er alþjóðlegt, hefst í dag 25. nóvember og lýkur 10. desember. Vítt og breitt um heiminn sameinast hin ýmsu samtök í því að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi með ýmsum hætti. Roðagylltur litur er einkenni átaksins, bjartur og skír og táknar bjartari framtíð.
Þekktu rauðu ljósin (e. Read the signs) er slagorð átaksins.
Soroptimistar á Íslandi standa fyrir fræðslu til almennings sem ætluð er að vekja og styrkja vitund karla og kvenna á öllum aldri um ofbeldi. Við bendum fólki á að leita sér aðstoðar í þau úrræði sem eru á upplýsingasíðu 112, þar má finna gagnlegar upplýsingar um hvert hægt er að leita. Mörg af þeim námskeiðum sem Soroptimistar standa fyrir miða að því að styrkja sjálfsmynd ungra kvenna. Útbúið hefur verið fræðsluefni um hinar ýmsu myndir ofbeldis sem flokka má í sex flokka: andlegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, fjárhagslegt ofbeldi, stafrænt ofbeldi og eltihrelling. Ekki er alltaf auðvelt að átta sig á því að um ofbeldi sé að ræða í samböndum fólks, en það getur átt sér stað óháð kyni, aldri og kynhneigð. Samkvæmt rannsóknum hafa 15-20% íslenskra kvenna og 5-10% íslenskra karla verið beitt ofbeldi af maka sínum. Líklega búa um 2% íslenskra kvenna við ofbeldi hverju sinni.
Tölur í skýrslu Ríkislögreglustjóra segja að sjö tilkynningar um heimilisofbeldi eða ágreining bárust að meðaltali lögreglunni á dag, eða
205 tilkynningar á mánuði á fyrri hluta ársins 2022. Þannig mætti lengi telja, þörfin er mikil og hún er víða. Send hefur verið beiðni til utanríkisráðherra Íslands Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur um að sendiráð Íslands erlendis, sem og ráðuneyti hérlendis, verði hvött til að lýsa upp byggingar sínar meðan á átakinu stendur. Markmið okkar er að roðagylla Ísland, og hvetjum við öll fyrirtæki og stofnanir sem möguleika hafa á að lýsa upp byggingar sínar með viðeigandi hætti.
Soroptimistar á Íslandi hafa gert það að verkefni sínu að vekja athygli á þeim raunverulegu aðstæðum sem konur, börn og fólk almennt býr við í ofbeldissamböndum. Við viljum hvetja alla til að kynna sér málefnið, fræðast og leggja sitt af mörkum til að stöðva ofbeldi. Við munu þessa
16 daga vekja athygli á málinu meðal annars með því að klæðast roðagylltum fatnaði, selja ýmsan varning til styrktar málefninu, og birta greinar og fræðsluefni.
Soroptimistar eru alþjóðleg samtök kvenna sem hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðri heimsmynd, þar sem samtakamáttur kvenna nær fram því besta sem völ er á. Samtökin vinna sérstaklega að bættri stöðu kvenna, að mannréttindum öllum til handa, sem og jafnrétti, framförum og friði með alþjóðlegri vináttu og skilningi að leiðarljósi. Soroptimistar stuðla að menntun kvenna og stúlkna til forystu. Eitt helsta markmið Soroptimista er að liðsinna konum í baráttunni fyrir jafnrétti og frelsi, en brjóta niður og eyða félagslegum, efnahagslegum og menningarlegum múrum og höftum með fræðslu og menntun. Við mótum og stofnum til nýrra verkefna, öflum fjármagns sem þarf til að bæta efnahagslega stöðu kvenna og fjölga tækifærum þeirra. Í heila öld hafa Soroptimistar unnið jafnt og þétt að því að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum og tryggja aðkomu kvenna að friðarumleitunum. Í alþjóðasamtökunum eru yfir 72.000 félagar í 121 löndum. Soroptimistar eiga líka ráðgefandi fulltrúa hjá hinum ýmsu stofnunum Sameinuðu þjóðanna, og eru ráðgefandi aðili að Efnahags- og félagsmálaráði S.Þ.
(ECOSOC). Íslenskir soroptimistar eru um 630 talsins í 19 klúbbum víðsvegar um land. Soroptimistasamband Íslands er hluti af Evrópusambandi Soroptimista.
Á lokadegi átaksins 10. desember er alþjóðlegur dagur soroptimista og þá mun forseti þeirra á Íslandi ásamt klúbbum landsins afhenda styrk til tveggja verkefna. Annars vegar eru það Sigurhæðir, sem soroptimistar á Suðurlandi standa fyrir, en Sigurhæðir kallast aðstaða á Selfossi fyrir þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis. Hins vegar mun styrkur ganga til Kvennaathvarfsins í Reykjavík, sem fyrirhugar að byggja nýtt neyðarathvarf. Húsið yrði fyrsta sérhannaða neyðarathvarfið á Íslandi fyrir konur og börn sem eru að flýja ofbeldi. Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að leggja inn á reikning Soroptimistasambands Íslands 0319-13-701113, kt 551182-0109.
Soroptimistar vilja skora á íslensk stjórnvöld að senda frá sér skýr skilaboð um að samfélagið líði ekki kynbundið ofbeldi og að komið verði í veg fyrir og brugðist við kynbundnu ofbeldi samkvæmt tillögum Sameinuðu Þjóðanna.
Þekktu rauðu ljósin - Soroptimistar hafna ofbeldi.
Með kveðju
Guðrún Lára Magnúsdóttir
forseti