Skip to main content
Um okkur

Soroptimist International

Við erum alþjóðleg samtök kvenna sem hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðri heimsmynd, þar sem samtakamáttur kvenna nær fram því besta sem völ er á.  Samtökin vinna að bættri stöðu kvenna, að mannréttindum öllum til handa sem og jafnrétti, framförum og friði með alþjóðlegri vináttu og skilningi að leiðarljósi.

Við erum starfsgreinasamtök og er leitast við að hafa fulltrúa sem flestra starfsstétta til að fá sem breiðastan hóp. Skuldbindingar eru um að mæta á að minnsta kosti helming félagsfunda, sem eru einu sinni í mánuði yfir vetrarmánuðina, borga félagsgjöld og taka þátt í starfi klúbbsins.

Þær sem hafa áhuga á að ganga til liðs við okkur er bent á að skoða síðuna https://systur.is/.

Tengsl við Sameinuðu þjóðirnar

Heimsmarkmið SÞ - smellið á myndina til að lesa

Alþjóðasamband Soroptimista starfar með ýmsum stofnunum Sameinuðu þjóðanna og öðrum frjálsum félagasamtökum.

united nationsSoroptimistar eiga ráðgefandi fulltrúa með málfrelsi hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna í New York, París, Genf, Róm og Vín.

Markmið Soroptimista eru þau sömu og markmið Sameinuðu þjóðanna; friður, skilningur meðal þjóða heimsins og stuðningur við mannréttindi.

Alþjóðasamband Soroptimista á ráðgjafaraðild að Efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC). Ráðgjafaraðild gefur ómetanleg tækifæri til þess að taka þátt í fundum og ná sambandi við fulltrúa stjórnvalda, annarra frjálsra félagasamtaka og við embættismenn Sameinuðu þjóðanna, sérstaklega í málefnum sem tengjast stöðu kvenna.

Hlutverk fulltrúa Soroptimista hjá Sameinuðu þjóðunum er:

  • að fylgjast með tilteknum þáttum í starfsemi Sameinuðu þjóðanna til þess að gefa stjórn Alþjóðasambands Soroptimista (SI) nauðsynlegar upplýsingar
  • að koma á framfæri verkefnum frá Alþjóðasambandinu.
Uppbygging samtakanna

Soroptimist International nefnist á íslensku Alþjóðasamband Soroptimista.

Alþjóðasamband Soroptimista byggist upp af fjórum heimshlutasamböndum sem gerir sambandið í senn fjölbreytilegra og lýðræðislegra. Heimshlutasamböndunum eru sett sameiginleg lög og reglur af stjórn Alþjóðasambandsins en innan þess lagaramma getur hvert samband sett sér sínar eigin reglur. Alþjóðasamband Soroptimista á virkt samstarf við stofnanir Sameinuðu þjóðanna.

Heimshlutasamböndin eru:

  • Ameríkusamband Soroptimista
  • Evrópusamband Soroptimista
  • Bresk-Írska-samband Soroptimista
  • Suðvestur-Kyrrahafssamband Soroptimista

Undir hverju heimshlutasambandi eru landssambönd eða svæðasambönd, og svo klúbbar.

Soroptimistasamband Íslands er hluti af Evrópusambandi Soroptimista og lýtur lögum þess og reglum. Soroptimistar geta sótt fundi hjá hvaða klúbbi sem er, hvar sem er í heiminum, og sótt þing og mót víða um heim.

Skipurit - þríhyrningar

Alþjóðaforseti

Alþjóðaforseti er kosinn til tveggja ára í senn og leggur hann línurnar um starfsemi Soroptimista, kemur með ný viðhorf og ferska strauma enda kemur ætíð nýr forseti frá nýju heimshlutasambandi. Alþjóðaforseti hefur sér til fulltingis alþjóðastjórn sem í eru, auk stjórnar Alþjóðasambandsins, þrír fulltrúar (núverandi, fyrrverandi og verðandi forsetar) frá heimshlutasamböndunum fjórum. 

Alþjóðaforseti hefur sér til fulltingis alþjóðastjórn sem í eru, auk stjórnar Alþjóðasambandsins, þrír fulltrúar (núverandi, fyrrverandi og verðandi forsetar) frá heimshlutasamböndunum fjórum. Í alþjóðasamtökunum eru 90.000 félagar í rúmlega 3000 klúbbum sem mynda þessi fjögur heimshlutasambönd. Stöðugt bætast við ný lönd, sérstaklega í Austur-Evrópu.

Tengsl við önnur samtök

EVRÓPURÁÐIÐ -- COUNCIL OF EUROPE
Evrópuráðið var stofnað 1949 en SIE hefur verið aðili að Evrópuráðinu frá 1983. Evrópuráðið vakir yfir mannréttindum, lýðræði, lögum og  tilskipunum.

Evrópuráðið skiptist í ráðherraráð, Evrópuþing og Evrópudómstól um mannréttindi. Einnig er innan Evrópuráðsins sérstök ráðstefna (forum) fyrir frjáls félagasamtök (NGO-organizations) sem telur um 400 félaga. Soroptimistar eiga áheyrnarfulltrúa hjá Evrópuráðinu og SIE hefur gengið til liðs við svokallað DAPHNÉ Programme sem gengur út á að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum, börnum og unglingum og skapa vernd fyrir fórnarlömb ofbeldis og áhættuhópa.


DAPHNÉ starfar 2007-2013 og er ætlunin að veita styrki til verkefna sem vinna gegn ofbeldi. Í framtíðinni verður starfsemi Evrópuráðsins skipt í þrjú efnissvið, þ.e. réttarfarsnefnd (Rights Committee), sambúðarnefnd (Living Together Committee) og menntanefnd (Education Committee).


EUROPEAN WOMEN’S LOBBY
EUW voru stofnuð árið 1990 og héldu upp á 20 ára afmæli sitt í október 2010. EUW eru regnhlífarsamtök 2500 kvennasamtaka í Evrópu. Hlutverk EUW er að berjast fyrir jafnræði kynja í lýðræðislegu samfélagi og bættri efnahagslegri og félagslegri stöðu kvenna í samfélaginu. Í tilefni af afmæli samtakanna hefur verið gerð skýrsla um femínisma 21. aldar á vefslóðinni http://womenlobby.org/spip.php?rubrique60&lang=en
og almennar upplýsingar um EUW má finna á síðunnihttp://www.womenlobby.org


ÖRYGGIS- OG SAMVINNUSTOFNUN EVRÓPU.

OSCE – ORGANIZATION OF SECURITY AND CO-OPERATION IN EUROPE
ÖSE eru stærstu samtök um öryggismál í heiminum og ná til 56 þátttökulanda í Evrópu, Mið-Asíu og Norður Ameríku. Soroptimistar geta ekki tekið þátt í föstum fundum samtakanna og þurfa því að fylgjast með á vef og umræðuvefjum. Á árinu 2010 var haldin ráðstefna, Civil Society Forum, þar sem fulltrúar frá frjálsum félagasamtökum gátu komið með tillögur að nauðsynlegum framkvæmdum. Einnig voru haldnir vinnufundir um „Skort á umburðarlyndi gagnvart innflytjendum “ (Intolerance against migrants) og
„Manneskjuna sem söluvöru“ (Trafficking in Human Beings). Heimasíða OSCE geymir mjög mikilvægar upplýsingar og er slóðin http://www.osce.org


Hvatning og markmið

Hvatnig og markmið eru lesin í upphafi hvers fundar hjá Soroptimistaklúbbum um allan heim.

Hvatning
  • Sýnum drenglyndi og verum einlægar í vináttu
  • Verum reiðubúnar til hjálpar og þjónustu
  • Sýnum í verki skilning og friðarvilja
  • Setjum markið hátt og vinnum störf okkar með sæmd og ábyrgðartilfinningu
Markmið
  • Að vinna að bættri stöðu kvenna
  • Að gera háar kröfur til siðgæðis
  • Að vinna að mannréttindum öllum til handa
  • Að vinna að jafnrétti, þróun og friði, fyrir tilstuðlan alþjóðlegs skilnings og velvildar
  • Að vinna að meiri sjálfbærni í umhverfismálum í heimabyggð, heimalandi og á alþjóðavettvangi
Áherslur

Soroptimistar skulu beita sér fyrir:

  • Að veita þjónustu í heimabyggð, heimalandi og á alþjóðavettvangi
  • Að taka virkan þátt í ákvarðanatöku hvarvetna í þjóðfélaginu
  • Að fjölga klúbbfélögum
  • Að vinna að markmiðum Alþjóðasambands Soroptimista og Landssambandsins
Nafn og merki samtakanna
Nafn samtakanna

Nafn og merki Soroptimist International var formlega samþykkt á ráðstefnu í Washington DC árið 1928.
Tvær mismunandi túlkanir eru á nafninu „sorores optime" bestu systur eða „sorores ad optumum" systur sem vinna að því besta en það er sú túlkun sem nú er notuð.

Merki samtakanna

Merki samtakanna er táknrænt fyrir hugsjónir Soroptimista. Merkið var hannað af stofnfélaga í Oaklandklúbbnum í Bandaríkjunum.
Lárviðarlaufin eru krýning fyrir vel unnin verk en akörnin, ávöxtur eikarinnar, gefa vísbendingu um innri styrk. Merkið er unnið í bláu smelti á gylltum grunni. Litir samtakanna eru því blár og gulur.

Saga Soroptimista

soroptimistclubs 1927Soroptimistahugsjónin verður til um svipað leyti í Bandaríkjunum og Bretlandi eftir fyrri heimsstyrjöldina. Ástæðuna má rekja til þess að konur höfðu látið meira að sér kveða í fyrri heimsstyrjöldinni og eftir að henni lauk voru konur í lykilstöðum á ýmsum sviðum og höfðu þörf fyrir vettvang til að láta að sér kveða. Fyrsti klúbburinn var stofnaður með áttatíu konum í Oakland í Kaliforníu árið 1921.

Á árinu 1924 voru fyrstu klúbbarnir stofnaðir í Evrópu, í London og í París.

dr suzanne noelNafn dr. Suzanne Noël, sem var læknir að mennt, er órjúfanlega tengt sögu Soroptimista en hún átti mestan þátt í útbreiðslu samtakanna á fyrstu árunum fram til 1930 en á þeim tíma breiddist hreyfingin til Kanada og um alla Evrópu.

Á árinu 1929 urðu til heimshlutasamböndin tvö Ameríkusambandið og Evrópusambandið.

Árið 1934 klauf Bretland sig frá Evrópusambandinu og stofnaði Bresk-írska sambandið sem varð þriðja heimshlutasambandið.

Árið 1978 varð til fjórða heimshlutasambandið en það eru klúbbar á Suðvestur Kyrrahafssvæðinu.

Soroptimisminn hafði smátt og smátt náð fótfestu á Norðurlöndunum þegar nálgaðist miðja 20. öldina. Fyrst var stofnaður klúbbur í Osló árið 1933 og ári seinna í Bergen. Með tvo klúbba var hægt að stofna Norska landssambandið en það var gert 1939. Árið 1938 var Danska landssambandið stofnað og árið 1950 var Sænska landssambandið stofnað með tveimur klúbbum, Stokkhólmsklúbbnum, sem stofnaður hafði verið 1948 og Uppsalaklúbbnum 1949. Fyrsti klúbburinn var stofnaður í Finnlandi 12. maí 1952 og ári síðar var Finnska landssambandið stofnað.

Hugsjón Soroptimista kom formlega til Íslands með stofnun fyrsta klúbbsins, en það var þó búið að kynna samtökin hér á landi strax árið 1955.

Það ár kom til landsins vestur-íslensk kona, sem sannarlega vakti athygli og viðtöl við hana birtust í Morgunblaðinu og Tímanum, auk þess sem um hana var fjallað í Lögbergi og Heimskringlu. Dora S. Lewis kom hér við til að heilsa upp á skyldmenni sín, en hún var í bandarískri sendinefnd sem var að kynna sér húsmæðrafræðslu í Evrópu og nágrenni.

Þann 19. september 1959 var fyrsti klúbburinn stofnaður á Íslands, Soroptimistaklúbbur Reykjavíkur. Það voru 18 konur, sem sátu þann stofnfund. Á fimmtíu ára afmæli klúbbsins var gefin út bókin Samtaka systur, sem segir söguna klúbbsins og samtakanna hér á Íslandi.

Síðan var ekki stofnaður klúbbur á Íslandi fyrr en klúbbur Hafnarfjarðar og Garðabæjar var stofnaður 26. maí 1973. Eftir það fór Soroptimistaklúbbum að fjölga á Íslandi og yngsti klúbburinn  Tröllaskagi var stofnaður 17. okt. 2015. Haustið 2019 eru 19 klúbbar starfandi á Íslandi með rúmlega 600 konum.

Árið 1973 var Soroptimistsamband Íslands stofnað og fyrsti forseti þess var Halldóra Eggertsdóttir, Reykjavík  1974-1976. Hver forseti starfar í tvö ár.

Soroptimistar á Íslandi hafa unnið mörg góð verk í gegnum tíðina en fyrstu árin voru þau verkefni öll unnin í hljóði og enginn vissi hvað þessi samtök stóðu fyrir en í dag er þetta breytt. Soroptimistar vilja vera sýnilegar og vinna að bættri stöðu kvenna og stúlkna um heim allan.

 

Forsetakeðjan
Saga forsetakeðjunnar

forskedj270Forseti Landssambandsins ber jafnan embættistákn um hálsinn, silfurkeðju með stórum náttúrusteini. Kristín Einarsdóttir upplýsingafulltrúi Landssambandsins hefur safnað saman upplýsingum um sögu keðjunnar sem ávallt er nefnd forsetakeðjan og birtist grein hennar í marsblaði Fregna árið 2006. Eftirfarandi er unnið úr grein Kristínar.

Hugmynd

Stofnfundur Soroptimistasambands Íslands var haldinn 8. júní 1974 og hann sátu systur úr Reykjavíkurklúbbi og Hafnarfjarðar- og Garðabæjarklúbbi ásamt fulltrúum úr væntanlegum Soroptimistaklúbbum í Kópavogi og Keflavík. Á þessum fundi bar Margrét Guðmundsdóttir tannsmiður í Reykjavíkurklúbbi fram tillögu um að Landssambandið eignaðist forsetakeðju. Lagði hún fram myndarlegt framlag og hvatti til þess að safna yrði innan klúbbanna fyrir veglegri keðju. Tillögunni var vel tekið en sambandið átti ekki neina sjóði til framkvæmda. Leitað var til Ragnheiðar Jónsdóttur listakonu í Hafnarfjarðar- og Garðabæjarklúbbi og hún beðin um hugmynd að keðju.

Teikning keðju – hugvit kvenna

Ragnheiður kom með teikningu að keðju sem var kynnt á fyrsta Landssambandsfundinum í Hafnarfiði árið 1975. Við könnun á kostnaði við smíði hennar kom í ljós að það myndi kosta mun meira en það sem safnast hafði í keðjusjóð. Systur misstu ekki móðinn, mikið var rætt um hvernig unnt væri að smíða ódýrari keðju sem væri samboðin Soroptimistum. Þá kom Lovísa Christiansen innanhússarkitekt í Hafnarfjarðar- og Garðabæjarklúbbi fram með hugmynd um að nota náttúrustein til að einfalda og minnka smíðina. Guðlaug Berglind Björnsdóttir klúbbsystir og  kaupkona í Hafnarfirði kom með nokkra steina sem hún hafði fundið og maður hennar Hallur Ólafsson hafði slípað og bauðst til þessa að gefa Landssambandinu. Valinn var hvítur steinn sem Lovísa teiknaði umgerð um ásamt keðju.

Framkvæmd – verklok

Jóna Valgerður Höskuldsdóttir hjúkrunarfræðingur, fyrsti varaforseti sambandsins, fór með teikninguna og steininn til bróður síns, Árna Höskuldssonar gullsmiðs, og samdi við hann um smíðina. Í upphafi Landssambandsfundar í Kópavogi 1976 setti Margrét Guðmundsdóttir Reykjavíkurklúbbi, sú sem átti hugmyndina og fyrsta framlagið, forsetakeðjuna í fyrsta sinn um háls Halldóru Eggertsdóttur Landssambandsforseta.

Forsetakeðjan sem embættistákn

Á hátíðarfundi sama kvöld setti Halldóra keðjuna um háls Jónu Valgerðar Höskuldsdóttur nýkjörins annars Landssambandsforseta og rakti í stuttu máli tilurð keðjunnar. Söfnunarféð kom frá Reykjavíkurklúbbi og Hafnarfjarðar- og Garðabæjarklúbbi. Sú hefð hefur síðan skapast upp frá því, í lok Landssambandsfundar annað hvert ár, að forseti setur keðjuna um háls verðandi forseta sem tekur við embætti það sama haust og verðandi forseti ber embættistáknið meðan hann ávarpar fundinn. Af framangreindu er ljóst að allir forsetar Soroptimistasambands Íslands til þessa hafa borið forsetakeðjuna.