Að gera heiminn betri fyrir konur og stúlkur
Árið 1921 var Stuart nokkur Morrow á fullu að undirbúa stofnun nýs Rótarý-klúbbs í Kaliforníu. Hann hringdi í Parker-Goddard Secretarial School í þeirri vissu að skólinn væri rekinn af körlum. Honum til mikillar undrunar reyndust eigendur skólans konur og því ekki gjaldgengar í klúbbinn sem var bara fyrir karla. Adelaide Goddard, eigandi skólans sem svaraði símtali Stuarts, tilkynnti honum einfaldlega að svo lengi sem ekki væri pláss fyrir konur í svona samtökum hefði hún ekkert við hann að tala. En Stuart var klókur karl og sá sér leik á borði að stofna bara hliðstæð kvennasamtök með svipuð markmið og Rótarý þar sem Rótarý var bara fyrir karlmenn. Þannig varð Soroptimistahreyfingin til þann 3. október 1921og úr varð mjög blómlegt félagsstarf sem síðan hefur breiðst um heiminn. Fyrstu klúbbarnir í Evrópu voru stofnaðir 1924 og hreyfingin kom til Íslands þann 19. september 1959 þegar Soroptimistaklúbbur Reykjavíkur var stofnaður. Í dag starfa hér 19 klúbbar víðs vegar um landið með um 600 konum.
Soroptimist International eru alþjóðleg samtök kvenna sem hafa það að markmiði að bæta stöðu kvenna, vinna að jafnrétti og mannréttindum og þjóna sínu samfélagi. Nafn samtakanna kemur úr latínu „sorores ad optimum“ – systur sem vinna að því besta. Gaman er að skoða rætur þessara samtaka sem eiga sér nokkuð sérstakt upphaf og eru orðin 100 ára gömul.
Styðjum þolendur ofbeldis
Veljum að vaxa eru kjörorð forseta Soroptimistasambands Íslands stjórnartímabilið 2020-2022 og ná þessi orð bæði til mannræktar og umhverfismála innan og utan klúbbanna. Hver klúbbur vinnur sem ein heild að verkefnum sem efla konur og stúlkur, s.s. sjálfstyrkingu ungra kvenna, menntun kvenna, stuðning við verðandi mæður og mæður með geðheilsuvanda. Samtökin hafa lagt áherslu á aðstoð við konur sem eru þolendur ofbeldis og má þar t.d. nefna að íslenskir Soroptimistar hafa stutt við Kvennaathvarfið, Bjarkahlíð – miðstöð fyrir þolendur ofbeldis og Sigurhæðir sem er nýopnað úrræði á Selfossi fyrir konur sem eru þolendur kynbundins ofbeldis. Einnig má nefna ýmis konar aðstoð við konur af erlendum uppruna.
Umhverfismál og sjálfbærni
Mikilvægur armur starfseminnar er verndun umhverfis og náttúru sem hefur orðið viðfangsefni margra klúbba sem hafa tekið að sér gróðurreiti eða farið í hreinsunarferðir í nærumhverfi sínu.
Á þessu ári halda Soroptimistar upp á 100 ára afmæli Soroptimistahreyfingarinnar á alþjóðavísu og ætla íslenskir Soroptimistar að fagna því á ýmsa vegu, m.a. með því t.d. að gróðursetja trjáplöntur víða um landið. Þann 19. júní, kvenréttindadaginn, gróðursetti Guðrún Lára Magnúsdóttir forseti Soroptimistasambands Íslands ilmreyni í trjásafninu í Meltungu í Kópavogi í tilefni aldarafmælisins. Er það táknrænt og vel við hæfi þar sem Soroptimistahreyfingin hefur látið umhverfismál og sjálfbærni til sín taka í sínu starfi. Klúbbar víðs vegar um landið munu sjá um gróðursetningu í sínu nærumhverfi. Með gróðursetningarátakinu í tilefni aldarafmælis er ætlunin að vekja athygli á samtökunum hér á landi og þeim fjölmörgu verkefnum sem íslenskir klúbbar vinna að.
Soroptimistar og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Alþjóðasamband Soroptimista hefur náin tengsl við stofnanir Sameinuðu þjóðanna enda falla markmið Soroptimista vel að markmiðum SÞ sem eru friður, skilningur meðal þjóða heimsins og stuðningur við mannréttindi. Auk þess að eiga ráðgjafaaðild að stofnunum SÞ hafa Soroptimistar sett þrjú heimsmarkmiðanna í forgang í starfi sínu. Markmiðin eru að tryggja öllum jafnan aðgang að góðri menntun og tækifæri til náms alla ævi; jafnrétti kynjanna verði tryggt og staða allra kvenna og stúkna styrkt; og að tryggja aðgengi allra að hreinu vatni og sjálfbæra nýtingu þess svo og hreinlætisaðstöðu.
Þátttaka íslenskra Soroptimista í ýmsum atburðum tengjast heimsmarkmiðunum og má í því sambandi nefna þátt þeirra í atburðum 8. mars, alþjóðlegum baráttudegi kvenna, til að vekja athygli á valdeflingu kvenna, kynjajöfnuði, menntun og forystu. Einnig taka klúbbar, ásamt mörgum kvennasamtökum, þátt í árlegu 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi sem stendur yfir frá 25. nóvember til 10. desember en sá dagur er jafnframt mannréttindadagur Sameinuðu þjóðanna og dagur Soroptimista.
Leiðtogafærni og tengslanetið
Soroptimistum er í mun að efla ungar konur og því hafa norrænir Soroptimistar undanfarin ár staðið fyrir leiðtoganámskeiði (Soroptimist Nordic Leadership Academy) sem haldið er til skiptis á Norðurlöndunum. Markmið námskeiðsins er að efla leiðtogafærni ungra kvenna á aldrinum 20-30 ára, undirbúa þær undir hugsanlegar stjórnunarstöður og efla tengslanet þeirra. Hafa þessi námskeið reynst mjög vel og ungu konurnar sem tekið hafa þátt í þeim eflst mjög eftir að þær koma heim.
Soroptimistahreyfingin telur nú um 72.000 konur um víða veröld og með þátttöku í hreyfingunni gefst konum kostur á að efla tengslanet sitt, kynnast konum með ólíkan bakgrunn og starfsvettvang sem allar vinna að sömu markmiðunum, hver með sínum hætti.
Þó margt hefur áunnist á þessum 100 árum frá því Stuart karlinn hringdi þetta örlagaríka símtal þá er leiðarljósið það sama – að gera heiminn betri fyrir konur og stúlkur.
Á kvenréttindadaginn afhentu Soroptimistasamband Íslands og klúbbar hreyfingarinnar Líf styrktarfélagi kvennadeildar Landspítalans styrk að upphæð þrjár milljónir til að bæta aðbúnað og þjónustu.
Ásgerður Kjartansdóttir og Sigrún Klara Hannesdóttir
Höfundar eru félagar í Soroptimistaklúbbi Reykjavíkur