Stoltir Soroptimistar !
Að fylgjast með Soroptimistum roðagylla heiminn er ekki bara undravert heldur fyllir mann stolti að vera Soroptimisti og partur af því mikilvæga og þarfa starfi sem unnið er í samtökunum. Að fá í þessum hópi tækifæri til að vekja athygli á að ofbeldi gegn konum og stúlkum líðst ekki er verkefni sem Soroptimistar á Íslandi og um heim allan hafa svo sannarlega tekið alvarlega. Við höfum lýst upp byggingar, skrifað greinar og fréttatilkynningar í dagblöð, tekið þátt í sjónvarpsviðtölum og komið að verkefnum þar sem konur og stúlkur fá aðstoð við að takast á við lífið og brjótast undan ofbeldi sem þær hafa búið við jafnvel árum saman.
Þegar ég opna fésbókina mína þá er hún roðagyllt og sögur klúbba koma reglulega upp og segja frá því hvernig þeir með mismunandi hætti taka þátt í verkefninu. Í Keflavík kaupir maður appelsínugular sápur og bakkelsi. Við Húnaflóa les maður á ljósastaurum hvernig maður ber sig að við að leita sér þekkingar og aðstoðar ef maður er í fjötrum ofbeldis eða telur sig þekkja einhvern í þeim sporum. Í Árbænum kaupir maður órangslitar rósir sem munu hjálpa einstæðri móður sem lent hefur í kynferðisofbeldi að leita sér hjálpar og svona mætti lengi telja, allir klúbbar eru með einum eða öðrum hætti að vekja athygli á átakinu og leggja sitt af mörkum til að bæta heim kvenna og stúlkna.
Strax í haust þegar ljóst var að starfið yrði með óhefðbundunum hætti vegna kórónuveirunnar þá vöknuðu áhyggjur um að 16 daga átakið gæti átt erfitt uppdráttar og klúbbar héldu sig til hlés. Raunin er heldur betur önnur og segja má að bréf Guðrúnar Láru forseta samtakanna til ráðamanna þar sem hún hvatti til þess að sendiráð Íslands á erlendri grundu yrðu lýst upp í lit átaksins hafi slegið tóninn og hvatt systur til dáða. Nyrsta sendiráð í heimi í Nuuk á Grænlandi er roðagyllt ásamt sendiráðum okkar í Stokkhólmi og Moskvu og í Berlín er unnið að því að roðagylla. Algjörlega frábærar fréttir og ekki síður ánægjulegt að fá vissu um að hlustað er á rödd Soroptimista.
Talskona samtakanna María Björk hefur með jákvæðum og uppbyggilegum hætti hvatt klúbba til að vera sýnilegir og taka þátt og hefur hún fært okkur fréttir hvað er á döfinni á hverjum stað. Daglega hefur hún birt markmið Sameinuðu þjóðanna bæði á vef sambandssins og fésbók. Inn á vefsíðunni okkar má finna samantekt Maríu Bjarkar um aðkomu hvers klúbbs að átakinu, verðmæti sem eiga eftir að hjálpa okkur á komandi árum að fá hugmyndir og auðvelda þannig undirbúning og vinnu fyrir átakið sem er árlegt.
Verkefnastjórar og vefstjóri hafa safnað efni bæði á innri og ytri vef sambandsins bæði til að vekja athygli á átakinu en ekki síður til að aðstoða klúbba með því að hafa myndir og efni átaksins aðgengilegt en það er afar mikilvægt að samtökin ekki bara á Íslandi heldur í heiminum öllum birtst með samræmdum hætti og tali sama máli.
Soroptimistar hafa verið áberandi síðustu daga hvert sem litið er, roðagylltar byggingar og greinar sem birst hafa á landsvísu en einnig í bæjarblöðum sem gert hafa átakinu góð skil. Að taka þátt í átaki eins og þessu er eins og vítamínsprauta fyrir félagsskap eins og okkar, en í því speglast hlutverk okkar og markmið og með því að taka virkan þátt erum við sýnilegar og rödd okkar heyrist.
Allt efni 16 daga átaksins Roðagyllum heiminn má finna vefsíðunni okkar og fésbókarsíðu og hvet ég ykkur kæru systur til að kynna ykkur allt það sem frá samtökunum og klúbbum hefur farið, það er nefnilega alveg magnað hvað máttur okkar er mikill þegar við stöndum saman.
Aðventu- og átakskveðja
Alma Guðmundsdóttir varaforseti SIÍ