Skip to main content

Verkefni Soroptimistaklúbba á Íslandi vegna #rodagyllumheiminn átaksins 2020.

Í ár beinist átakið að áhrifum kóvít-19 á kynbundið ofbeldi. Í kjölfar heimsfaraldursins hefur orðið mikil aukning á ofbeldi gegn konum og stúlkum hér á landi og erlendis og þá sérstaklega heimilisofbeldi.

Aðgerðir til að ná tökum á faraldrinum valda félagslegri einangrun og spenna og álag eykst út af áhyggjum af heilsu, öryggi og fjárhagslegri afkomu. Konur einangrast á heimilum með gerendum og eiga erfitt með að leita sér aðstoðar til að komast í burtu því stuðningskerfið er rofið. Þetta eru kjöraðstæður fyrir drottnun og ofbeldi fyrir luktum dyrum og skuggafaraldur kóvít-19. 

Bæði konur og karlar verða fyrir kynbundnu ofbeldi en konur og stúlkur eru samt yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem verða fyrir slíku ofbeldi. Það var áður umborið í skjóli einkalífsins en er nú viðurkennt sem ein af verstu birtingarmyndum kynjamisréttis. Kynbundnu ofbeldi er viðhaldið af félagslegum viðmiðum og staðalímyndum sem mismuna á grundvelli kyns og veikja stöðu kvenna og stúlkna. 

Sameinuðu þjóðirnar hvetja ríkisstjórnir heims til að hafa aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi sem lykilþátt í viðbragðsáætlunum sínum gegn kóvít-19, m.a. með því að beina fjármunum að úrræðum og stoðþjónustu við þolendur, senda skýr skilaboð um að samfélagið líði ekki kynbundið ofbeldi og að réttarkerfið sjái til þess að gerendur séu gerðir ábyrgir gjörða sinna. 

Tryggja þarf mannréttindi og grundvallarfrelsi kvenna til að ná tökum á skuggafaraldri kóvít-19. 

Stöndum saman um að rjúfa þagnarmúrinn um kynbundið ofbeldi og stuðlum að vitundarvakningu um að við sem samfélag eigum að hafna því. 

 

Soroptimistar roðagylla Ísland.

Soroptimistaklúbbur Akraness hefur ritað bréf til fjölda fyrirtækja og stofnana í bænum og hvatt þau til að roðagylla byggingar sínar. Fjölbrautaskóli og Ráðhústorgið verða roðagyllt.

Soroptimistar á Akureyri eru í samstarfi við Zontaklúbba bæjarins um að vekja athygli bæjarbúa á 16 daga átakinu. Búið að senda yfirlýsingu til allra staðarmiðla, viðtal á N4 sjónvarpi þar sem vakin var athygli á átakinu. Klúbburinn selur roðagyllt kerti til fjáröflunar auk trefla frá Prjónastofu Akureyrar. 

Soroptimistar á Austurlandi hafa hvatt opinbera aðila til að roðagylla byggingar sínar og verður það gert í hverju sveitarfélagi. Plaköt með upplýsingum um átakið verða hengd upp á ýmsum stöðum auk þess sem greinar munu birtast í staðarmiðlum. 

Árbæjarsystur munu selja appelsínugul rósabúnt og hafa þær hvatt  fyrirtæki í hverfinu til að  lýsa upp sínar byggingar í appelsínugulu meðan átakið stendur yfir.  Ágóðinn af sölunni rennur til þurfandi kvenna í hverfinu.

Bakka- og Seljaklúbbur hefur unnið að því , ásamt Kvenfélagi Seljakirkju, að "Roðagylla" Seljakirkju á meðan á átakinu stendur. Stjórnin skrifaði grein í Breiðholtsblaðið.

Grafarvogsklúbbur ætlar að hvetja fyrirtæki til að roðagylla byggingar á starfssvæði klúbbsins og hvetja systur til að roðagylla  eigin facebook síður og dreifa boðskapnum um heiminn, t.d. með því að taka skjáskotsmynd af klúbbnum þar sem allar eru með roðagyllta hluti hjá sér á borðinu. Hugmynd er um að systur skreyti hús sín og híbýli með roðagylltum lit á tímabilinu.

Hafnarfjörður-Garðabær Systur  hafa sent yfirvöldum í Hafnarfirði og Garðabæ beiðni um að roðagylla sem flestar opinberar byggingar. Einnig hefur Forsetaembættinu verið sent sambærilegt erindi. Þá verður leitað eftir að fá umfjöllun í innanbæjarblöðum og vekja athygli bæjarbúa á 16 daga átakinu, út á hvað það gengur og fá myndbirtingu af roðagylltum byggingum. Systur eru beðnar um að heiðrai Roðagyllta-átakið með því að Roðagylla sig sjálfar eins oft og auðið er, t.d. á (vef)fundum klúbbsins, á samfélagsmiðlum o.fl. og eru þær hvattar til að deila myndböndunum "Þekktu rauðu flöggin" á samfélagsmiðlum og vekja almenning þannig til umhugsunar um kynbundið ofbeldi

Soroptimistaklúbbur Húsavíkur  hefur sent fyrirtækjum/stofnunum í Þingeyjarsýslum bréf með upplýsingum um verkefnið og óskað eftir að þau taki þátt með því að lýsa upp með roðagylltum lit.Sett verða upp veggspjöld í fyrirtækjum/stofnunum til að vekja athygli á verkefninu.Níu konur úr klúbbnum auk fréttamanns munu koma  saman við Húsavíkurkirkju og setja upp roðagullna lýsingu þar, ganga síðan með ljós upp í Skrúðgarð og koma þar upp lýsingu.,,Ræðumaður" og sóknarprestur birta pistla sína í fréttamiðlum 26. nóvember ásamt formála frá formanni/verkefnastjórum

Soroptimistaklúbbur Hóla-og Fella hefur óskað eftir því við Fjölbrautaskólann í Breiðholti að hann verði roðagylltur. Roðagyllt hálsmen eru auglýst til sölu á klúbbsíðu okkar og systur eru hvattar til að vera sýnilegar í roðagylltum fötum á tímabilinu

Keflavíkurklúbbur selur appelsínugular sápur sem systur bjuggu til, um 180 stykki í þessari fyrstu lotu.Systur óskuðu eftir því að fyrirtæki og stofnanir roðagylltu byggingar og ætla að pósta myndum á Facebook eins og í fyrra til að vekja athygli á átakinu. Í Sigurjónsbakaríi verða seldir mannúðarsnúða og kærleikskleinuhringi með appelsínugulu kremi dagana 25.11-10.12 þar sem hluti ágóðans rennur til Velferðarsjóðs Suðurnesja. Systur hafa vakið athygli á átakinu í Víkurfréttum og á Hringbraut.

Kópavogssystur  sendu bréf  á bæjarskrifstofurnar, Menningarstofnanir, Smáralind, BYKO, Íslandsbanka og fleiri þar sem óskað var eftir að þau lýstu upp byggingar sínar með roðagylltum lit þann tíma sem átakið stendur yfir.

Soroptimistar í Mosfellssveit  ætla að selja amk. 200 handgerð kerti í appelsínugulum lit frá Ás styrktarfélagi og létu einnig prenta límmiða með merki verkefnisins sem fylgja hverju kerti.Lýstar verða upp Lágafells- og Mosfellskirkju ásamt Álafoss-fossi í appelsínugulum lit. Þá verður verkefnið kynnt í Mosfellspósti, bæjarblaðinu. 

Soroptimistaklúbbur Reykjavíkur ætlar  að styrkja Kvennaathvarfið og mun Sigþrúður Guðmundsdóttir framkvæmdastýra þess koma á desember fund klúbbsins með kynningu á starfi athvarfsins. 

Seltjarnarnesklúbbur hefur komið því til leiðar að Seltjarnarneskirkja og Gróttuviti verða roðagyllt í 16 daga átakinu. Auk þess eru systur hvattar til að roðagylla Facebooksíður sínar. 

Skagafjarðarklúbbur hefur vakið athygli á átakinu með fréttatilkynningu, auglýsingum og veggspjöldum sem systur dreifa á vinnustaði. Auk þess verða margar kirkjur og opinberar byggingar upplýstar í roðagylltum lit. 

Soroptimistaklúbbur Snæfellsness  hefur fengið staðfest að  kirkjurnar á Staðarstað, Búðum, Ólafsvík og að Ingjaldshóli verða roðagylltar ásamt tveimur byggingum í þéttbýliskjörnunum Hellissandi og Ólafsvík. Á nóvemberfundi kom Sigþrúður Guðmundsdóttir á fund hjá klúbbnum og hélt fyrirlestur um Kvennaathvarfið og sterkustu konur í heimi. Auk þess skrifuðu systur grein um verkefnið í bæjarblaðið Jökul.

Suðurlandsklúbbur hefur sent bréf til stofnana á svæðinu og kynnt átakið  fyrir þeim og óskað eftir samtakamætti með því að lýsa upp byggingarnar með appelsínugulu ljósi  og einnig að benda starfsfólki á að klæðast appelsínugulu einhverja af þessum dögum t.d 25. nóvember. Ætlunin er að safnast saman með appelsínugular grímur sem við látum sauma fyrir okkur á vinnustað fatlaðra á Suðurlandi, VISS og ganga með luktir eftir aðalgötu bæjarins. Einnig verður send grein í Dagskrána sem er blað sem næstum allir Sunnlendingar sjá þar sem vakin er athygli á þessum viðburði og þessum 16 dögum og einnig sagt frá verkefninu okkar "Sigurhæðir"sem við erum að vinna að þessa stundina undir stjórn HIldar Jónsdóttur.

Tröllaskagaklúbburinn ætlar að dreifa á sínu upplýsingum um hvar er hægt að leita hjálpar, skrifa greinar í staðarmiðla og hvetja til þess að kirkjur á svæðinu verði roðagylltar.  Einnig hafa þær ákveðið að styrkja Kvennaathvarfið með fjárframlagi.

Soroptimistaklúbburinn Við Húnaflóa fékk þau skilaboð frá prestum á Norðvesturlandi að kirkjurnar á Melstað, Hvammstanga, Blönduósi, Skagaströnd, Sauðárkróki, Hofsósi , Hólum og mögulega einnig Miklabæ og Glaumbæ, verði allar roðagylltar í átakinu í ár.  Klúbburinn hefur lagt til við íbúa á starfssvæði sínu að þeir setji eitthvað appelsínugult út í glugga, taki mynd af því og deili með # merki átaksins, #rodagyllumheiminn.  Upplýsingar um heimilisofbeldi og hvar hjálp er að finna verða prentaðar út, plastaðar og hengdar upp með appelsínugulum borða á ljósastaura við fjölfarna staði á starfssvæðinu. Þá verður áhersla á að ná til svæðisfjölmiða okkar, Feyki og Húnahornið, með upplýsingar um verkefnið.

Landssamband Soroptimista  óskaði eftir því að Utanríkisráðuneytið myndi hvetja sendiráð Íslands til að roðagylla þær byggingar sínar sem hægt væri og var því afar vel tekið.  Vakin hefur verið athygli allra evrópsku Soroptimistaklúbbanna á íslensku myndböndunum “Þekktu rauðu ljósin” sem hægt er að nálgast með enskum texta á heimasíðu soroptimist.is  

Forseti sambandsins hefur sent fjölmiðlum grein þar sem vakin er athygli á 16 daga átakinu. Öllum miðlum hefur verið send fréttatilkynning um starf og áherslur Soroptimista í 16 daga átakinu. 

Vakin verður athygli á átakinu daglega á heimasíðu og Facebooksíðum Soroptimista.