SNLA 2019 - Finnland
Norræna leiðtoganámskeiðið haldið í þriðja sinn í Finnlandi- Soroptimist Nordic Leadarship Academy (SNLA)
Fyrsta norræna leiðtoganámskeiðið sem Soroptimistar stóðu að og skipulögðu var haldið í Öland í Svíþjóð í júni 2017 og þá voru sendar 3 stúlkur frá Íslandi. Noregur var næstur í röðinni og til Röros fóru 5 stúlkur í júní 2018. Þriðja námskeiðið var svo haldið í Helmiranta í Finnlandi í sumar og líkt og áður var markmið námskeiðsins að efla leiðtogafærni ungra kvenna, undirbúa þær undir hugsanlegar stjórnunarstöður og efla tengslanet þeirra. Stúlkurnar sem fóru voru:
- Thelma Kristinsdóttir, 23 ára, var að klára þriðja ár í læknisfræði við HÍ en meðmælandi er Soroptimistaklúbbur Snæfellsnes.
- Þórheiður Elín Sigurðardóttir, 27 ára þroskaþjálfi og vinnur við grunnskólann í Ólafsvík. Meðmælandi er Soroptimistaklúbbur Snæfellsnes.
- Björg Ingólfsdóttir, 25 ára nemi í viðskiptafræði við HÍ með áherslu á markaðs og alþjóðaviðskipti. Meðmæli frá systrum í Hóla og Fella.
- Monika Rögnvaldsdóttir, 22 ára móttökustjóri í World Class og er að hefja nám í verkefnastjórnun í HR haustið 2019. Meðmælandi er Soroptimistaklúbbur Akureyrar.
- Anna Dís Arnardóttir, 26 ára tölvunarfræðingur. Meðmælandi er Soroptimistaklúbbur Grafarvogs.
Í heildina voru 23 þátttakendur frá öllum Norðurlöndunum og samkvæmt skipuleggjendum verkefnisins gekk framkvæmdin vel og voru íslensku þátttakendurnir okkar landi og þjóð til sóma. Könnun var gerð meðal þátttakenda í lok námskeiðsins og kom þar fram að námið hefði verið mjög gott, krefjandi og vel skipulögð dagskrá. Þær voru ánægðar með fjölbreytileikann í dagskránni; heildræn en fjölbreytt nálgun á verkefnunum, markþjálfun, sjálfsskoðun, hópefli, núvitund, jóga og kynning á soroptimistastarfinu. Umsagnir þátttakenda voru meðal annars; „ég er svo þakklát fyrir að hafa verið valin og að hafa fengið að upplifa þetta ævintýri. Þetta gerði miklu meira fyrir mig en ég hefði giskað á. Námskeiðin voru frábær og þvílíkt sem þetta voru flottar ungar konur og vitneskjan sem kom frá þeim, þetta var alveg magnað.“ Annar þátttakandi sagði; „námskeiðið var meiriháttar, heil vika þar sem ég gat spáð í hvernig ég geti náð framförum í lífinu, sæst betur við sjálfa mig og virkilega spáð í hvað ég vil gera í framtíðinni. Undirbúningurinn hér heima var fínn en kannski mætti samfélagið gera meira úr þessu hérna heima á Íslandi.“
Námskeiðið var stúlkunum að kostnaðarlausu en styrkir fengust til verkefnisins, ásamt því að Soroptimistasamband í hverju landi greiddi ferðakostnað og hluta í uppihaldi.