Skip to main content

"Þekktu rauðu ljósin"

Sigrún Þorgeirsdóttir forseti SIÍ - Morgunbl. 27.11.2024

Roðagyllum heiminn er átak helgað baráttu gegn ofbeldi gagnvart stúlkum og konum. Í ár er áherslan á stafrænt ofbeldi og baráttuna gegn því.

Nú stendur yfir 16 daga átak sem hófst hinn 25. nóvember og er helgað baráttunni gegn ofbeldi gagnvart stúlkum og konum. Átakið nefnist Roðagyllum heiminn og Soroptimistasamband Íslands tekur þátt í því ásamt fleiri kvennasamtökum. Soroptimistasamtökin eru starfsgreinasamtök og starfa um allan heim í fimm heimssamböndum. Soroptimistakonur eru nú um 70 þúsund í um 120 löndum. Þær hafa það að markmiði að vinna að bættri stöðu kvenna og stúlkna um allan heim og að vinna að mannréttindum öllum til handa sem og jafnrétti, þróun og friði fyrir tilstuðlan alþjóðlegs skilnings og velvildar.

Táknlitur átaksins er appelsínugulur eða roðagylltur sem er litur vonar og tákn um bjartari framtíð. Soroptimistar á Íslandi hvetja til þess að opinberar stofnanir, kirkjur og fyrirtæki um allt land verði roðagyllt meðan á átakinu stendur. Hvatning hefur verið send til ráðherra í ríkisstjórninni um að roðagylla ráðuneytisbyggingar þessa daga sem átakið stendur yfir. Roðagyllt spjöld með upplýsingum um átakið verða fest á innkaupakerrur í verslunum og einnig verður seldur roðagylltur varningur í fjáröflunarskyni fyrir styrktarverkefnin okkar, eins og rósir, kerti, gjafakort, treflar, innkaupapokar o.fl. Soroptimistar styrkja samtök sem veita þolendum kynbundins obeldis hvers kyns stuðning, t.d. með fræðslu, meðferðarúrræðum og lagalegri ráðgjöf.

Slagorð átaksins Roðagyllum heiminn er „Þekktu rauðu ljósin“ en rauðu ljósin eru sex: andlegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, fjárhagslegt ofbeldi, stafrænt ofbeldi og ofbeldi eltihrellis. Í ár er áherslan á stafrænt ofbeldi og baráttuna gegn því. Soroptimistar hafa gert fræðsluefni með viðvörunum um þess konar ofbeldi. Það er mikilvægt að fræða almenning, einkum ungt fólk, um alvarleika stafræns ofbeldis. Ungt fólk er viðkvæmasti hópurinn fyrir stafrænu ofbeldi en allir eiga rétt á því að geta verið öruggir í netheimum.

Meðal einkenni sem þolendur stafræns ofbeldis sýna eru að hætta á samfélagsmiðlum, forðast ákveðin umræðuefni á netinu, ný tilfinningaleg eða sálræn einkenni, merki um að vera úr jafnvægi, og kvíði, depurð eða reiði koma í ljós eftir samskipti á netinu. Einnig má nefna líkamleg einkenni eins og höfuðverki og magaverki, breytingu á svefnvenjum og matarvenjum, tilhneigingu til að einangra sig frá fjölskyldu og vinum og lakari frammistöðu í námi eða vinnu.

Bjargráðin gegn stafrænu ofbeldi eru að deila aldrei lykilorðum með neinum, geyma lykilorðin á öruggum stað og hugsa áður en smellt er til að koma í veg fyrir að opinbera viðkvæmar upplýsingar, að gæta að því hverju er hlaðið niður og sýna sérstaka aðgát þegar efni er sett inn á samfélagsmiðla því að það er ekki hægt að afturkalla. Síðast en ekki síst er hvatt til þess að tilkynna stafrænt ofbeldi til opinberra aðila og viðkomandi samfélagsmiðils.

Soroptimistar vilja stuðla að því að sem flestir þekki framangreind einkenni stafræns ofbeldis og einnig bjargráðin gegn því. Við beinum því til allra að deila þessum upplýsingum með fjölskyldu, vinum og samfélaginu öllu. Að hafa forvarnir í forgrunni er lykilatriði í baráttunni gegn stafrænu ofbeldi eins og öðru ofbeldi.

Höfundur er forseti Soroptimistasambands Íslands.

Höf.: Sigrún Þorgeirsdóttir

 Birtist í Morgunblaðinu 27. nóvember 2024 á bls 14.