Skip to main content

Neyðarlínan 112 - Vitundarvakning gegn ofbeldi – ofbeldi gegn öldruðum.

Í október opnaði vefgátt 112 um ofbeldi fyrir þolendur, gerendur og aðstandendur með upplýsingum um ofbeldi og leiðir til aðstoðar út úr ofbeldinu. Jafnframt hófst vitundarvakning Neyðarlínunnar þar sem fólk er hvatt til að segja frá og hafa samband við 112 þegar minnsti grunur er um ofbeldi.  Verkefnið er stutt af félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra sem hluti af tillögum aðgerðateymis gegn ofbeldi á tímum heimsfaraldurs Covid-19.  Teymið er skipað Sigríði Björk Guðjónsdóttur, ríkislögreglustjóra og Eygló Harðardóttur, verkefnastjóra Aðgerðateymis gegn ofbeldi.

Vitundarvakning Neyðarlínunnar er framkvæmd í áföngum þar sem í hverjum áfanga er áhersla á að nálgast einstaka viðkvæma hópa, samhliða hinni almennu vitundarvakningu um að hafa samband við 112 ef áhyggjur vakna um ofbeldi.

Í janúar og febrúar var lögð áhersla á fólk með fötlun og börn. 

Í mars er lögð sérstök áhersla á ofbeldi gegn eldra fólki, þar sem m.a. er byggt á greiningu Ríkislögreglustjóra á hættunni sem eldra fólki stafar af ofbeldi.  Samhliða birtingu á markaðsefni var leiðað eftir samstarfi við þrjú félagasamtök sem lagt hafa baráttunni gegn ofbeldi lið í gegnum árin: Það eru Soroptimistar, Zonta á Íslandi og Oddfellowhreyfingin.

Við Soroptimistar tókum kallinu vel og ég fékk það hlutverk að setja mig í samband við Sigrúnu Huld Þorgrímsdóttur öldrunarhjúkrunarfræðing en hún var tilbúin að vera með fyrirlestur þar sem hún tekur fyrir þætti sem eru ofbeldi gegn eldra fólki.  Hún byggir fyrirlesturinn á rannsóknum en einnig segir hún frá á eigin reynslu og úr umönnunarstörfum með öldruðum. Það var afar gott að leita til Sigrúnar og hún boðin og búin að leggja þessu málefni lið. Mín upplifun af fyrirlestrinum og ekki síður af samtölum mínum við Sigrúnu Huld að þá á maður á hættu að beita aldraða obeldi meðvitunarlaust, eins og t.d. þegar velviljinn og stuðningurinn verður að forræðishyggju eða þegar þegar maður gengur of langt í hjálpseminni og fer að tala fyrir þann aldraða þrátt fyrir að viðkomandi sé alls ekki búin að missa málið.

Hér má sjá fyrirlestur Sigrúnar, hann er rúmar 20 mínútur að lengd og ég hvet alla til að gefa sér tíma til að hlusta, það er margt áhugavert sem þarna kemur fram og lærdómurinn mikill.

Takk Sigrún Huld fyrir þitt góða innlegg inn í umræður um ofbeldi gegn eldra fólki og að gefa okkur Soroptimistum þannig tækifæri á að leggja Neyðarlínunni lið í átaki sínu.

Alma Guðmundsdóttir, varaforseti