Soroptimistar styrkja baráttu gegn ofbeldi
Kvennadagurinn 19. júní er hátíðis- og baráttudagur kvenna á Íslandi, þá er því fagnað að konur fengu kosningarrétt 1915. Alþjóðasamband Soroptimista lætur að sér kveða í umfjöllun um ofbeldi gegn konum í 16 daga átaki sem við hér á landi nefnum að við Roðagyllum heiminn 25. nóvember til 10. desember. Einnig merkjum við okkur fjólubláar á baráttudaginn 8. mars sem lenti að þessu sinni inni í Covid-19 tímabilinu. Nú bætum við 19. júní við, baráttudegi íslenskra kvenna, nú til jafnréttis inni á heimilum sínum.
Bjarkarhlíð og Bjarmahlíð eru miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis og aðilar að Evrópusamtökunum Family Justice Center. Samtökin héldu ráðstefnu fyrir aðila sem starfa að þessum málaflokki 2019 í Belgíu og munu halda ráðstefnu hér á landi í nóvember 2020 ef Covid-19 leyfir og er Ísland þar með fyrsta norræna landið sem valið er til að halda þessa ráðstefnu. Soroptimistar í Belgíu veittu þeim veglegan styrk 2019 og mun Soroptimstasamband Íslands-SIÍ styrkja verkefnið að þessu sinni. Tengiliður okkar við verkefnið er Ragna Björg Guðbrandsdóttir teymisstjóri í Bjarkarhlíð og Soroptimistasystir í Árbæjarklúbbi.
Forsetastyrk núverandi forseta SIÍ verður varið til þýðingar myndbanda, sem kölluð eru Rauðu ljósin og gefin hafa verið út á vegum Bjarkarhlíðar, Bjarmahlíðar og Kvennaathvarfsins. Þau eru þegar aðgengileg á ensku og verða þýdd á fleiri tungumál, meðal annars pólsku.
Soroptimistar gera sig þar með sýnilegar hér á landi, í Evrópu sem á alþjóðavísu varðandi þetta málefni. Við leggjum baráttunni gegn ofbeldi lið á kvennadaginn 19. júní.