Skip to main content

Skýrsla vegna Úkraínu

SIE hefur gefið út skýrslu, "Women in war zones”,

þar sem greint er frá aðstoð Soroptimista vegna stríðsins í Úkraínu. Skýrslan er fróðleg en þar má finna margvíslegar upplýsingar um verkefni og skiptingu þess fjár sem safnaðist frá heimshlutasamböndum Soroptimista, landssamböndum, klúbbum og systrum.

Gaman er að sjá að í skýrslunni er SII nefnt sem eitt af fimm landssamböndum sem mest lögðu til í neyðarsjóð SI.

Ákveðið var í byrjun að stuðningur Soroptimista til kvenna og barna frá Úkraínu yrði þríþættur;

  1. Fjárhagslegur stuðningur: mánaðarlegar greiðslur til flóttafólksins til að standa straum af kostnaði vegna húsnæðis, ferða og heilbrigðisþjónustu.
  2. Stuðningur vegna aðlögunar í móttökulandinu: tungumálanámskeið, aðstoð við að opna bankareikning, hjálp við að skrá börn í skóla.
  3. Útvegun nauðsynja: s.s. fatnaðar, fæðu og lyfja.

Neyðarhópar voru settir á laggirnar og skiptu þeir með sér aðstoð við klúbba í Úkraínu og nágrannalöndunum.  Þannig heldur Sviss utan um úkraínska klúbba og borgara, pólska landssambandið og klúbba þar. Norski neyðarhópurinn sér um klúbba í Moldavíu og Rúmeníu og austurríski hópurinn um Slóvakíu og Ungverjaland

Um 70 milljónum íslenskra króna var ráðstafað til 20 verkefna í nágrannaríkjum Úkraínu; Ungverjalandi, Moldavíu, Póllandi, Rúmeníu og Slóvakíu.

Inngang skýrslunnar ritaði Carolien Demey forseti SIE og þar segir hún meðal annars:

Þegar stríð braust út í Úkraínu í febrúar 2022 sáum við hve mikilvægt tengslanet Soroptimista er. Staða kvenna breyttist, mannréttindi voru brotin, friður rofinn og fjöldi fékk stöðu flóttamanna. Þá kom í ljós hve miklu máli skipti að hafa soroptimista á staðnum sem bjuggu yfir tungumálakunnáttu og þekkingu á innviðum samfélagsins. Þetta þýddi að hægt var að bregðast hratt við og meta raunverulegar þarfir. Carolien vill þakka öllum sem hönd lögðu á plóginn en áréttaði að neyðin sé enn til staðar og muni aukast og breytast. Þegar kemur að uppbyggingu á stríðssvæðunum og endurskipulagningu á menntakerfinu munu Soroptimistar vera þar. Einnig sé mikilvægt að konur komi að friðarviðræðum og samningum. Margt hefur breyst á þeim 100 árum sem liðin eru frá stofnun Soroptimistahreyfingarinnar. Við höfum upplifað stríð, heimsfaraldra og hnattræna hlýnun. Gegnum þetta allt höfum við verið trúar hlutverki okkar að standa með konum með því að gera það besta fyrir konur. ,,Soror Optima”.

Skýrsluna sem er 23 bls. löng má finna í heild sinni  hér  https://www.soroptimisteurope.org/wp-content/uploads/2023/04/wiwz-2023-final-31-08-23.pd