Hugleiðing á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars - Sigrún Þórisdóttir
Mannréttindi og staða konunnar
Margar myndir birtast þegar hugað er að stöðu konunnar með tilliti til mannréttinda. Í fyrstu snerust hugsanir mínar um stöðu konunnar eins og hún er í dag bæði hér á landi og erlendis en ég fann fljótlega að til þess að geta velt fyrir mér stöðunni eins og hún er núna þá er nauðsynlegt að huga að fortíðinni. Ég tel að það sé bæði hollt og gagnlegt fyrir okkur sem viljum stuðla að bættum hag kvenna að leiða hugann að stöðu kvenna fyrr á tímum. Við þurfum að reyna að ímynda okkur hver kjör kvenna hafa verið og hversu mikið áræði, seiglu, dugnað og eldmóð margar formæður okkar hafa sýnt, bæði þær sem voru fremstar í flokki og eins hinar sem lögðust á árarnar beint og óbeint þó þeirra sé ekki getið á spjöldum sögunnar. Ef ég lít í eigin barm þá er ég mjög þakklát fyrir að hafa alist upp hjá mömmu og ömmu sem höfðu jafnrétti að leiðarljósi bæði í orði og á borði hvor á sinn hátt eftir stöðu þess tíma. Á hinn bóginn skammast ég mín fyrir fátt meira en að hafa hugsað á barns- og unglingsárum: En að konur skuli líða þetta. Af hverju eru þær ekki fyrir löngu búnar að breyta þessu og ná fram sjálfsögðum mannréttindum konum til handa? Þetta sjónarmið mitt ber greinilega vott um unggæðingslegan hroka sem reyndar eltist smátt og smátt af mér eftir því sem ég gerði mér betur grein fyrir
rótum vandans.
Mannréttindi er vítt hugtak.
- Í lagalegum skilningi: Réttindi sem skilgreind eru í réttindaskrám og alþjóðasamþykktum.
- Í stjórnmálalegum skilningi: Réttindi sem talið er æskilegt að tryggja fólkinu í landinuhvort sem þau eru nefnd í alþjóðasamþykktum eður ei.
- Í siðferðilegum skilningi: Réttindi sem allir menn hafa óháð staðbundnumkringu mstæðum eins og samfélagsgerð eða efnahag.
Ýmsar skilgreiningar hafa verið settar fram á hugtakinu Mannréttindi en í þeim felst hugmynd um að allir menn njóti ákveðinna grundvallarmannréttinda sem ekki verða af þeim tekin og eru í gildi í hvaða lögsögu sem er og óháð þáttum eins og kyni, þjóðerni eða kynþætti.
Atli Harðarson heimspekingur talar um mannréttindi sem; rétt hvers manns til að vera ekki misþyrmt, rændur, kúgaður, niðurlægður eða myrtur. Sé horft á þróun stöðu kvenna á Íslandi síðustu 170 árin eða svo kemur í ljós að miklar breytingar hafa orðið í lagalegum skilningi og vil ég í því sambandi nefna örfá merk ártöl. Það er eftirtektarvert í eftirfarandi umfjöllun hvað hjúskaparstaða skiptir miklu máli. Karlmenn höfðu greinilega bæði vilja og getu til að kúga eiginkonur sínar lengur heldur en þær konur sem ekki voru í hjónabandi.
Árið 1850 fengu dætur jafnan erfðarétt á við syni
Árið 1861 tóku gildi ný lög um myndugleika kvenna. Með þeim var ógiftum konum 25 ára og eldri veitt fjárræði en áður höfðu þær þurft að hafa tilsjónarmann sem hafði eftirlit með fjárreiðum þeirra. Enn voru giftar konur ómyndugar.
Tæpum 40 árum síðar aldamótaárið 1900 fengu giftar konur lagalega heimild til séreignar og ráðstöfunar eigin eigna og tekna, en eiginmaðurinn hafði eftir sem áður yfirráð yfir eignum búsins. Í þessu samhengi er rétt að leiða hugann að því hversu margar konur höfðu möguleika til eigin tekjuöflunar.
Árið 1882 fengu ekkjur og ógiftar konur sem stóðu fyrir búi eða áttu með sig sjálfar kosningarétt til sveitarstjórnarkosninga og kosninga í safnaðanefndir.
Það var svo ekki fyrr en 20 árum síðar 1902 að sami hópur kvenna naut þeirrar náðar að hlotnast kjörgengi. En um leið var sett inn ákvæði sem gilti eingöngu fyrir konur; Þeim var heimilt að skorast undan kosningu. Skemmtilegur varnagli – Hverjum skyldi hann hafa gagnast? Þetta bráðskemmtilega ákvæði var svo afnumið 1926.
Þegar unnið er að framförum skiptir máli að skapa sameiginlegan starfsvettvang. Það var nauðsynlegt fyrir konur að hafa tækifæri til að sameina krafta sína. Þegar líða tók á 19. öldina fóru kvenfélögin að líta dagsins ljós. Fyrsta kvenfélagið í Húnavatnssýslum Kvenfélag Svínavatnshrepps var stofnað 1874. Í Reykjavík var stofnað Hið íslenska kvenfélag 1894. Kvenfélögin urðu til eitt af öðru víða um landið á seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar. Einnig var mikilvægt að geta komið skoðunum sínum á framfæri á opinberum vettvangi og fundið samhljóm í hugðarefnum. Kvennablöð litu dagsins ljós – Framsókn og Kvennablaðið voru
bæði sett á laggirnar árið 1895.
Árið 1907 var svo Kvenréttindafélag Íslands stofnað og sama ár fengu konur – þó ekki vinnukonur – í Reykjavík og Hafnarfirði kosningarétt. Ein stofnenda Kvenréttindafélagsins var Bríet Bjarnhéðinsdóttir og var hún einnig ein þeirra fjögurra kvenna sem kosin var í bæjarstjórn í Reykjavík af sérstökum lista ári síðar 1908. Þar var á ferð öflug baráttukona sem lét til sín taka í
ræðu og riti.
Þegar litið er til þessa tíma virðist augljóst að á höfuðborgarsvæðinu eins og það er nefnt í dag hefur verið sterkasti baráttubroddurinn. Á þessu svæði voru margar konur og því tiltölulega auðvelt að hittast og ráða ráðum sínum. En það sem mér finnst með því merkilegra sem ég hef lesið um þessi mál er að árið 1888 skrifuðu eitt hundrað vestfirskar og þingeyskar konur undir
sameiginlega áskorun til alþingis um aukin réttindi kvenna. Enginn póstbíll, engin facebook, ekki skype, ekki sms, ekki sími hvað þá möguleiki á símafundum en í staðinn ótrúlegur viljastyrkur og kraftur ásamt óbilandi trú á málstaðnum.
Hægt og hægt jukust réttindin og árið 1909 fengu konur um allt land kosningarétt og kjörgengi til sveitarstjórna. Af báðum kynjum voru þó undanþegnir þeir einstaklingar sem höfðu þegið af sveit. Enn var ekki inni í myndinni að konur hefðu kosningarétt og kjörgengi til alþingis.
En íslenskar konur héldu áfram baráttunni. Árið 1913 var samþykkt stjórnarskrárfrumvarp þar sem fram kom að konur og hjú 40 ára og eldri áttu að fá kosningarétt þegar ný stjórnarskrá yrði samþykkt. Hverjir skyldu hafa samþykkt þetta frumvarp? Dettur nokkrum í hug Húsbændur og hjú. Næstu fimmtán árin átti aldurstakmarkið síðan að lækka árlega um eitt ár. Þetta frumvarp var staðfest 19. júní 1915 og nú halda íslenskar konur þennan dag – Kvenréttindadaginn - hátíðlegan.
Ef litið er til menntunar kvenna var mikill munur á viðhorfum til menntunar annars vegar stúlkna og hins vegar drengja. Að vísu áttu öll börn að læra að lesa, en ekki var talið æskilegt að stúlkur stunduðu bóknám af einhverju tagi. En þær fengu að læra að vinna og handavinna ýmiss konar var hluti af því. Eflaust hefur það nám sem fram fór á hverju heimili í einhverjum mæli svo og hjá fínni frúm fyrir ríkra manna dætur lagt grunn að sjálfsmynd margrar ungrar stúlku.
Kaflaskil urðu varðandi menntun kvenna á seinni hluta 19. aldar þegar kvennaskólarnir tóku til starfa einn af öðrum. Hinn fyrsti Kvennaskólinn í Reykjavík var stofnaður 1874 en hér í KHúnavatnssýslu var stofnaður kvennaskóli árið 1879. Það var einmitt við Kvennaskólann á Ytri Ey sem Björg Þorláksdóttir hóf formlega skólagöngu. Hún var bóndadóttir frá Vesturhópshólum fædd árið 1874. Eftir nám í Kvennaskólanum á Ytri Ey hélt hún til Kaupmannahafnar lauk þar kennaraprófi og síðar stúdentsprófi, hélt áfram námi og varð fyrst íslenskra kvenna til að ljúka doktorsprófi árið 1926.
Árið 1886 fengu konur takmarkaðan rétt til að stunda nám við Lærða skólann, Prestaskólann og Læknaskólann, þær urðu að taka próf utan skóla, höfðu ekki rétt til námsstyrkja og ekki rétt til embætta eftir að námi lauk. Ekki árennilegt að stunda nám með þessum skilyrðum og áreiðanlega ekki á færi hinna efnaminni. En áfram héldu brautryðjendurnir og fyrsta konan lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum árið 1897. Skömmu seinna eða árið 1904 varð Lærði skólinn að menntaskóla og var eftir það jafnt opinn stúlkum sem piltum. Síðastliðin 120 ár hefur menntun kvenna svo aukist jafnt og þétt.
Um störf kvenna og laun þeirra fyrir vinnu sína væri margt hægt að segja, en réttur þeirra á þeim vettvangi sem og réttur til menntunar var lengi af afar skornum skammti. Laun vinnukvenna voru lengi 1/3 af launum karla í besta falli helmingur. Þá var og matarskammtur kvenna minni en matarskammtur karla. Fyrsta skrefið í þá átt að leiðrétta þennan mismun mun hafa verið tekið árið 1720 þegar kveðið var á um að ef konur ynnu karlmannsstörf þá fengju þær karlmannskaup. En talið er að þessi samþykkt hafi lítt náð fram að ganga, aðeins verið orð á blaði. Tæpum tveimur öldum síðar árið 1912 er talað um að konur hafi haft 15 aura á tímann
sama hvort um var að ræða dagvinnu, eftirvinnnu eða sunnudagavinnu, meðan karlarnir voru komnir upp í 40 – 50 aura í sunnudaga- og eftirvinnu, en ekki hef ég heimildir fyrir hvert dagvinnukaupið var hjá körlunum. Einn liður í baráttu kvenna var að stofna verkakvennafélagið Framsókn árið 1920.
Hvað með starfsumhverfi kvenna? Við þekkjum mörg af afspurn kjör vinnukvenna sem þurftu að loknum vinnudegi að draga sokkana af fótum vinnumannanna og þjóna þeim sem kallað var. Meðan vinnumennirnir áttu frí á kvöldin og á sunnudögum áttu þær að sjá um að fötin þeirra væru heil og hrein. Og húsfreyjurnar sem aldrei áttu frí, báru oft svo til einar ábyrgð á barnauppeldinu og að halda heimilinu gangandi virka daga og helga og voru þá stórhátíðar síst undanskildar. Sumar þeirra þurftu einnig að sjá um búreksturinn í fjarveru bændanna sem voru fjarverandi um lengri eða skemmri tíma - fóru í verið eða voru að sinna félagsmálum eins og það heitir á fínu máli nú til dags. En þessu er ekki svona varið núna eða hvað? Getur verið að einhver slík samsvörun leynist varðandi verkaskiptingu á heimilum enn þann dag í dag? Baráttan fyrir launajafnrétti og baráttan fyrir bættu starfsumhverfi hefur haldið áfram alla 20. öldina og allt til dagsins í dag. Launamunur karla og kvenna hefur minnkað síðustu ár. Árið 2019 var munur á atvinnutekjum kvenna og karla 25.5% en 32.9% árið 2010. Óleiðréttur launamunur var 13.9 % á móti 17.5% árið 2010 og leiðréttur launamunur 4.3% en 6.2% árið 2010. Með því að horfa saman til framtíðar og halda ótrauðar áfram hafa margir frábærir áfangar
náðst. Margir þættir hafa verið ofnir úr mismunandi þráðum og oftar en ekki eru þessir þættir samofnir að meira eða minna leyti. Hér verður aðeins minnst á fáein atriði. Smám saman hefur konum fjölgað í ábyrgðarstöðum, í nefndum og ráðum, í opinberri stjórnsýslu, atvinnulífinu og félagsmálum. Til að nefna örfá dæmi má geta þess að Auður Auðuns varð fyrst kvenna borgarstjóri árið 1959 og einnig fyrst kvenna ráðherra árið 1970. Fyrsti kvenpresturinn Auður Eir var vígð árið 1974 og Vigdís Finnbogadóttir varð fyrsti kvenforseti íslenska lýðveldisins árið 1980. Á þessari öld hafa svo fleiri brautryðjendur bæst við.; Kristín Ingólfsdóttir varð fyrsti
kvenrektor Háskóla Íslands árið 2004, Jóhanna Sigurðardóttir fyrst kvenna forsætisráðherra árið 2009 og árið 2012 var Agnes Sigurðardóttir kosin biskup Íslands.
Fjöldi kvenna hefur tekið höndum saman og leitast við að sporna við ofbeldi gegn konum og gera konum sem verða fyrir ofbeldi og búa við ofbeldi lífið bærilegra. Kvennaathvarfið var sett á stofn árið 1982, en það er athvarf fyrir konur og börn þeirra þegar dvöl í heimahúsum er þeim óbærileg vegna ofbeldis og Stígamót – Grasrótarhreyfing gegn kynferðisofbeldi hóf starfsemi sína hinn 8. mars 1990 á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.
Það sem minnst hefur verið á hér að framan tengist fyrst og fremst íslenskum veruleika. Í mörgum nágrannalöndum virðast kjör kvenna tiltölulega lík kjörum kvenna á Íslandi og má leiða líkum að því að skrefin til aukinna réttinda hafi verið tekin á svipuðum tíma og í svipuðum áföngum og gerðist hér á landi. Hins vegar ef skyggnst er til fjarlægari landa þar sem menningarheimur, siðir og venjur eru af öðrum toga en hér um slóðir búa konur við allt annan veruleika. Veruleika sem okkur finnst framandi og hugsun um þennan veruleika fyllir okkur gjarnan sárindum og reiði og vanmáttarkennd hellist yfir okkur. Nú er ekki tóm til að fara nánar út í þá sálma. Mig langar þó til að segja eina stutta reynslusögu. Fyrir allmörgum árum dvaldi á heimili mínu stúlka frá Svíþjóð ljós yfirlitum og glaðleg. Hún átti vel stæða foreldra og hafði ferðast víða með þeim. Það var svo nokkrum árum seinna að ég fékk jólakort og myndir frá henni þar sem kom fram að hún hafði gifst þeldökkum manni frá Ghana. Vonandi að hún verði hamingjusöm hugsaði ég og velti þessu ekki mikið meira fyrir mér. Skömmu seinna heimsótti ég þessa stúlku í Svíþjóð. Hún var enn gift unga manninum frá Ghana og virtist sátt við það. En ég verð að játa að skelfing fór nú lítið fyrir víðsýni og umburðarlyndi í mínum huga þegar hún - á
sinn glaðlega og opinskáa hátt - fór að segja mér frá raunveruleikanum á hans heimaslóðum. Faðir hans sat í skugganum allan daginn og reykti á meðan móðir hans vann fyrir heimilinu og sá um heimilisstörfin. Eldhúsið hennar og hinna eiginkvenna húsbóndans var mjög rúmgott. Það var úti undir berum himni, frjálst aðgengi fyrir þá sem vildu hjálpa til en einnig fyrir skordýrin
fleyg og ófleyg. Þetta voru normin hjá þessu fólki sem er af minni kynslóð.
Enn er þörf fyrir virka hugsun og framtakssemi til að styrkja stöðu konunnar. Markmið Soroptomista – bestu systra eru m.a. að vinna að bættri stöðu kvenna og að vinna að jafnrétti, framförum og friði með alþjóðlegri vináttu og skilningi. Tökum höndum saman
Soroptomistasystur ásamt öllum öðrum konum og körlum sem vilja leggja hönd á plóginn til að breyta heiminum til hins betra að því er varðar jafnan rétt kvenna og karla og þátttöku þeirra í störfum og ákvarðanatöku.
Sigrún Þórisdóttir
Höfundur er félagi í soroptomistaklúbbnum Við Húnaflóa.