Skip to main content

Forsetabréf ágúst 2021

Melstað ágúst 2021

Kæru systur
Sumarið hefur verið gjöfult og gott hjá mér, tíminn hefur meðal annars verið nýttur í gönguferðir og að treysta fjölskylduböndin. Vonandi hafið þið átt ánægjulega daga síðan ég sendi forsetabréf í byrjun júní.

Nú er komin tími til að setja sig í stellingar og fara huga að því sem við systur viljum ljúka á starfsárinu sem senn líður að lokum , og látum okkur hlakka til komandi starfsárs með nýjum verkefnum að taka sér fyrir hendur. Stjórnir klúbba ættu að fara að huga að því að hefja samtalið við þær systur sem taka við nýjum embættum innan klúbbanna, því fátt er betra fyrir verðandi embættismenn en að fá handleiðslu inn í ný embætti á þann hátt ganga hlutirnir margfalt betur fyrir sig.

Það var frábært að fylgjast með kraftinum sem einkenndi gróðursetninguna hjá klúbbum undir slagorðinu „Gróðursetning fyrir bjarta framtíð”. Myndir af viðburðum klúbbana við gróðursetningu út um landið voru einstakar og allar þær upplýsingar sem settar voru fram af þessu tilefni á fésbókinni nýtast verkefnastjórum í skýrslugerð þessu tengt. Þakkir kæru systur fyrir að leyfa okkur að fylgjast með því góða starfi sem þið inntuð af hendi. Sendifulltrúar Þóra Guðnadóttir og Rannveig Thoroddsen, Margrét Rögnvaldsdóttir laganefnd, Ingibjörg Jónasdóttir fyrverandi forseti og Sigrún Gunnarsdóttir verðandi forseti sátu sendifulltrúafund í Hamraborg fyrstu helgina í júlí og snerist fundurinn um margar stórar breytingar sem koma til framkvæmda í forsetatíð Sigrúnar verðandi forseta soroptimista á Íslandi 2022-2024. Á komandi haustfundi munum við fá að heyra hvað ber hæst til tíðinda varðandi lagabreytingar. Kosið var um næsta forseta í Evrópu og var það mikil gleðiefni fyrir okkur systur á Íslandi þegar Hafdís Karlsdóttir var kjörin forseti soroptimista í Evrópu með 33 atkvæðum á móti 10. Hún mun gegna þessu embætti í tvö ár og hefja störf árið 2023. Hafdís er fyrsti Soroptimistin á Íslandi til að gegna þessu embætti. Færi ég henni persónulega hugheilar hamingjuóskir fyrir hönd okkar systra og óska ég henni alls hins besta í komandi forsetatíð. Áfram voru fluttar fréttir af fundinum um að Suðurlandssystur fengu úthlutað styrk frá Action fund  upp á 18000 evrur fyrir verkefnið Sigurhæðir. Þær eru vel að  þessari viðurkenningu komnar fyrir framlag sitt í þágu kvenna á Suðurlandi. Verkefnið vekur mikla athygli bæði hér á landi sem erlendis. Hamingjuóskir Suðurlandssystur! Síðast en ekki síst var gert ljóst að Snærós Axelsdóttir og Rannveig Þórhallsdóttir fengu úthlutað skólastyrk frá Evrópu. Snærós fékk 3000 evrur og Rannveig fékk 5000 evrur, hamingjuóskir. Nú er staðan sú hvað varðar Haustfund að við stefnum á að funda á Hótel Laugarbakka fyrstu helgina í október. Á þessu augnabliki er erfitt að fullyrða hvort af því getur orðið, en við stefnum þangað og tökumsvo stöðuna þegar nær dregur.

Hlakka til samfunda við ykkur kæru systur,

kveðja Guðrún Lára Magnúsdóttir, forseti SI