Norrænir vinadagar 2018, Akureyri júní 2018

Norrænir vinadagar Soroptimista 2018, (Nordic Soroptimist Meeting 2018) voru haldnir á Akureyri dagana 22.- 23. júní undir yfirskriftinni “Our Environment and Energy - using it without losing it“.

Megin umfjöllunarefnið var umhverfismál út frá sjálfbærri orkunýtingu og verndun náttúrunnar og mikilvægi þess að konur láti til sín taka á þessum vettvangi. Einnig var fjallað um mannréttindabaráttu í þágu kvenna.

Part-of-the-group-attending-cropped

Þátttakendur voru rúmlega 200 talsins, Soroptimistar og gestir þeirra frá átta löndum. Hæst ber að nefna tvo aðal fyrirlesara ráðstefnunnar þær Mariet Verhoef-Cohen alþjóðaforseta Soroptimista og Renötu Trottmann Probst Evrópuforseta. Mariet fjallaði um verkefni hennar sem alþjóðaforseti “Women, Water and Leadership“ sem miðar að því að tryggja aðgengi kvenna og stúlkna að vatnsauðlindum og eflingu þeirra til mennta og áhrifa á þessu sviði. Renata fjallaði um ákall hennar sem Evrópuforseta “We stand up for women“ sem snýst um mannréttindabaráttu í þágu kvenna á sviði mansals, heimilisofbeldis og þvingaðra hjónabanda auk þess að fjalla um aðgengi kvenna að menntun og lagalegu jafnrétti.

2 Flugsafn Bryndis

MÓTTAKA Í FLUGSAFNI ÍSLANDS

Formleg dagskrá vinadaganna hófst með móttöku í Flugsafni Íslands föstudagskvöldið 22. júní þar sem rúmlega 200 gestir mættu til leiks í sannkölluðu blíðskaparveðri. Þar tóku Akureyrarsystur á móti gestum undir ljúfum harmónikku- og píanóleik þeirra hjóna Þuríðar og Reynis Schiöth. Bryndís Björg Þórhallsdóttir formaður Soroptimistaklúbbs Akureyrar og ráðstefnustjóri bauð gesti velkomna og flutti ávarp. Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi talaði fyrir hönd Akureyrarbæjar sem studdi viðburðinn með myndarlegum hætti og lagði meðal annars til metan-strætisvagna sem fluttu gesti til og frá Flugsafninu. Kammerkórinn Hymnodía flutti nokkur lög í hátíðlegum búningi og boðið var upp á úrval veitinga í mat og drykk en um þjónustuna sá vaskur hópur eigimanna Akureyrarsystra.

LEIKSÝNING CATHERINE WESTLING Í GÖTUBARNUM

Á föstudeginum var boðið upp á leiksýningu sem fram fór á Götubarnum í Hafnarstræti. Þar var á ferðinni sænska leikkonan og Soroptimistinn Catherine Westling sem flutti frábæran einleik um sænsku baráttukonuna Gulli sem barðist fyrir kosningarétti kvenna í Svíþjóð fyrir 100 árum. Leikritið var vel sótt, systur og gestir fylltu salinn og nutu sýningarinnar sem var flutt á sænsku en með skriflegri samantekt á ensku.

RÁÐSTEFNAN “Our Environment and Energy – using it without losing it“

Sjálf ráðstefnan fór fram í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri og var sett stundvíslega kl. 9.30 laugardaginn 23. júní við hátíðlega athöfn í umsjón Laufeyjar G. Baldursdóttur forseta Landssambandsins.

3 Hof Laufey

Glæsilegur hópur fyrirlesara auk alþjóða- og Evrópuforseta fluttu erindi sem voru í senn fræðandi og snertu við hlustendum.

Guðmundur Sigurðsson framkvæmdastjóri Vistorku á Akureyri sagði frá stefnu, aðgerðum og lausnum Akureyrarbæjar á sviði umhverfis- og orkumála en óhætt er að sega að Akureyri sé leiðandi afl á landsvísu í umhverfismálum og sjálfbærri orkunýtingu. Birgitta Stefánsdóttir sérfræðingur á sviði sjálfbærni hjá Umhverfisstofnun fræddi hlustendur um ógnverkjandi neyslumynstur nútímamannsins í hinum vestræna heimi. Ef við höldum áfram óbreyttum lífsstíl munum við þurfa 4,2 jarðir til að viðhalda núverandi neyslu. Hún tók fataiðnað sérstaklega fyrir en framleiðsla og sóun á því sviði er fjórði stærsti mengunarvaldur hvers neytanda. Brynhildur Davíðsdóttir prófessor í umhverfis- og auðlindafræðum við HÍ flutti afar fróðlegt erindi um sjálfbæra orkunýtingu á Ísland. Hún sýndi hvernig lausnin felst í fjárfestingum í endurnýjanlegri orku en sagði jafnframt að því miður væri þróunin ekki nógu hröð á því sviði. Þá fjallaði Brynhildur um þá staðreynd að aðgengi að hágæða orku væri eitt af baráttumálum kvenna í heiminum. Rakel Guðmundsdóttir stjórnmálafræðingur og hugsjónakona í umhverfismálum flutti leiftrandi hvatningarræðu um mikilvægi þess að allir leggi sitt af mörkum til umhverfismála og að mest um vert sé að betrumbæta okkar daglegu neysluvenjur. Það sé tvennt í stöðunni, annað hvort veljum við að vera hluti af lausninni eða verðum partur af vandamálinu og vitnaði Rakel þar að lokum í baráttumanninn Eldridge Cleaver. Auður Nanna Baldvinsdóttir viðskiptaþróunarstjóri hjá Landsvirkjun sagði frá Félagi kvenna í orkumálum en hún er einn stofnenda þess. Sagði hún tilgang félagsins vera að koma á tengslaneti kvenna í orkugeiranum en jafnframt að hvetja konur til að mennta sig á því sviði. Lokamarkmið félagsins væri auðvitað að gera það óþarft. Hún sagði frá skýrslu sem hún tók þátt í að vinna um áhrif kvenna í orku- og veitugeiranum sem sýndi orsakatengsl milli kynjasamsetningar í stjórnun fyrirtækja og arðsemi eigin fjár. Þessar upplýsingar höfðu breiða skírskotun í verkefni alheimsforseta Women, Water and Leadership þar sem markmiðið er m.a. að efla konur í að sækjast eftir áhrifastöðum í stjórnun fyrirtækja á sviði vatnsauðlinda. Fida Abu Libdeh iðn- og tæknifræðingur, frumkvöðull og framkvæmdastjóri GeoSilica snerti streng í hjörtum allra með persónulegri frásögn af hennar baráttu til að komast til mennta en Fida fluttist til Íslands frá Palestínu 16 ára gömul. Fida kallaði fyrirlestur sinn From Waste to Value og vísaði þar bæði í eigið lífshlaup sem og framleiðslu fyrirtækis hennar á hágæða náttúruafurð sem byggir á affalls hráefni. Fida hvatti konur til að vera öðrum fyrirmynd með því að vera besta útgáfan af sjálfri sér hverju sinni. Guðrún Bergmann rithöfundur og heilsumarkþjálfi fjallaði um áhrif umhverfisins á heilsuna og vakti konur sannarlega til vitundar um mikilvægi þess að velja það sem við borðum út frá uppruna fæðunnar og meðhöndlunar og ekki síst varaði hún við skaðlegum áhrifum skordýraeiturs og ólífræns áburðar.

3 Hof fyrirlesarar

Fyrirlesarnir á myndinni eru frá vinstri:
Guðrún Bergmann, Auður Nanna Baldvinsdóttir, Brynhildur Davísðdóttir og Fida Abu Libdeh

Óhætt er að segja að dagskráin hafi gengið vel fyrir sig. Allar tímasetningar stóðust undir styrkri fundarstjórn Eyrúnar S. Ingvadóttur. Auk hádegis- og kaffihléa var boðið upp á tónlistaratriði og zumba dans. Að dagskrá lokinni höfðu systur og gestir þeirra tækifæri til að skoða bæinn og það sem hann hefur upp á að bjóða eða einfaldlega hvíla lúin bein fyrir hátíðarkvöldverðinn sem beið handan við hornið.

HÁTÍÐARKVÖLDVERÐUR

Formlegri dagskrá Norrænna vinadaga lauk með hátíðarkvöldverði í Hofi, skemmtidagskrá, rífandi gleði og dillandi dansi fram á nótt.

ÞAKKIR

Soroptimistaklúbbur Akureyrar vill koma á framfæri hjartans þakklæti til allra þeirra sem tóku þátt í að gera Norræna vinadaga að jafn glæsilegum og vel heppnuðum viðburði og raun ber vitni. Þar ber fyrst að nefna þátttöku Soroptimista hvaðanæva að frá Íslandi, Norðurlöndum og víðar sem völdu að koma og verja saman Jónsmessuhelginni á Akureyri í nafni friðar, fróðleiks og vináttu. Áhuginn og gleðin sem skein úr hverju andliti hvort sem það var á ráðstefnunni sjálfri eða á viðburðum henni tengdri endurspegluðu sannarlega tilgang Norrænna vinadaga sem er að skapa vinatengsl þvert á klúbba og landamæri í gegn um nærandi samveru, fróðleik og skemmtun.
Öllum fyrirlesurum sem fluttu framúrskarandi erindi á ráðstefnunni eru færðar kærar þakkir. Óhætt er að segja að þeir hafi allir sem einn sáð mikilvægum fræjum í hjörtu áheyrenda með einstaklega vönduðum og áhugaverðum erindum um umhverfismál og mannréttindabaráttu kvenna.

Eftirtalin fyrirtæki styrktu viðburðinn með myndarlegum hætti og kunnum við þeim bestu þakkir: Norðurorka, KEA, Landsnet, Efla og síðast en ekki síst Akureyrarbær sem veitti klúbbnum ómetanlegan stuðning.