Vel heppnað leiðtoganámskeið fyrir ungar konur

SNLA – Soroptimist Nordic Leadership Academy var haldin í Öland í Svíþjóð 26.-30. júni 2017. Markmið verkefnisins var að efla leiðtogafærni ungra kvenna, undirbúa þær undir hugsanlegar stjórnunarstöður og efla tengslanet þeirra.
Við auglýstum eftir þátttakendum í þetta verkefni hér innanlands. Þrátt fyrir að umsóknarfresturinn hafi verið stuttur fengum við 8 umsóknir frá mjög frambærilegum stúlkum til að taka þátt í þessu verkefni. Erfitt var að velja úr þessum glæsilega hópi en í ár voru sendar 3 stúlkur frá Íslandi:

  • Elísabet Bjarnadóttir, 26 ára frá Ólafsfirði nemi í þroskaþjálfafræði í Háskóla Íslands. Hún er einnig framkvæmdastjóri Dansíþróttasambands Íslands.
  • Isabel Alejandra Diaz, 20 ára frá Ísafirði, fædd í El Salvador. Nýlega útskrifuð frá Menntaskólanum á Ísafirði
  • Birgitta Sigursteinsdóttir, 27 ára frá Kópavogi. Hún er menntaður kvikmyndagerðarmaður.

stulka 1Stulka 2Stulka 3

Í heildina voru 25 þátttakendur frá öllum Norðurlöndunum og samkvæmt skipuleggjendum verkefnisins gekk framkvæmdin afar vel og voru íslensku þátttakendurnir okkar landi og þjóð til sóma.

Könnun var gerð meðal þátttakenda í lok námskeiðsins og kom þar fram að námið hefði verið mjög gott, krefjandi og vel skipuð dagskrá. Stúlkurnar kvörtuðu helst yfir því að dagskráin hefði verið of þétt og hádegishléin of stutt. Umsagnir þátttakenda voru meðal annars þær að „námskeiðið hefði verið framúrskarandi og miklu persónulegra en ég bjóst við,“ íslenski hópurinn náði mjög vel saman, sem var gott þar sem námskeiðið var mjög krefjandi,“ kennararnir voru frábærir,allir sem einn....og höfðu mikinn metnað og áhuga að kenna okkur.“ Einnig kom fram, „ aðstaðan var frábær, herbergin voru rúmgóð og maturinn var mjög góður, ég hef ekkert neikvætt að segja.“