Varðveisla gagna SIÍ á Kvennasögusafninu

Soroptimistasamband Íslands fagnar þann 8. júní n.k. að 43 ár eru síðan sambandið var stofnað. Á þessum árum hafa hlaðist upp skjöl sem geyma sögu sambandsins og mikilvægt er að ekkert glatist.

Ásgerður Kjartansdóttir Reykjavíkurklúbbi og fyrrverandi forseti SIÍ hefur farið í gegnum skjalasafn sambandsins og búið það til varðveislu.

Á stjórnarfundi þann 30. janúar 2017 var samþykkt að fela Kvennasögusafninu varðveislu þessara gagna enda fer vel á því þar sem segir í markmiðum safnisins: „Að safna og varðveita hvers konar prentað mál um konur að fornu og nýju, bækur og handrit eftir konur, óprentuð handrit og bréf kvenna svo og önnur skjöl, fundargerðir, starfsskýrslur og skjöl hinna ýmsu kvennasamtaka og erlend rit sem hafa gildi fyrir sögu kvenna.“

Haft var samband við forstöðukonu safnsins Rakel Adolphsdóttur og tók hún erindinu fagnandi. Kvennasögusafnið var stofnað 1. janúar 1975 og er sérstök eining innan Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns í Þjóðarbókhlöðu.

Ásgerður, Þóra Guðnadóttir Kópavogsklúbbi, fyrrverandi forseti SIÍ, og Gunndís Gunnarsdóttir Kópavogsklúbbi pökkuðu skjölunum í þar til gerða varðveislukassa og þann 2. mars 2017 heimsóttu þær safnið ásamt forseta SIÍ Laufeyju G. Baldursdóttur Akureyrarklúbbi og afhenti hún safninu gögnin formlega til varðveislu.

Heimsóknin í Kvennasögusafið var mjög ánægjuleg og fróðleg og sannfærðust systur um að með því að felaKvennasögusefninu varðveislu gagnanna varðveitir SIÍ sögu sína best til framtíðar.