Ályktun Reykjavíkurklúbbs

Á jólafundi sem haldinn var 3.12.2018 samþykkti Soroptimistaklúbbur Reykjavíkur að senda frá sér eftirfarandi ályktun:

Soroptimistaklúbbur Reykjavíkur lýsir yfir sorg og vanþóknun með að sú orðræða sem heyrist í upptökum af samtali sex núverandi þingmanna þar sem þeir sátu á bar í vinnutíma sínum, sé raunveruleiki nú árið 2018, eftir þá vitundarvakningu og umræðu sem átt hefur sér stað um kynbundið ofbeldi undanfarið.

Soroptimistahreyfingin berst á heimsvísu gegn kynbundnu ofbeldi. Soroptimistar hvetja til

aðgerða og skapa tækifæri til að breyta lífi kvenna og stúlkna með fjölþjóðlegu samstarfi og alþjóðlegu félaganeti. Soroptimistar hvetja til jafnræðis og jafnréttis, vinna að því að skapa öruggt og heilsusamlegt umhverfi, auka aðgengi að menntun, efla leiðtogahæfni og hagnýta þekkingu til sjálfbærrar framtíðar.

Orðræðan sem notuð var meðal þingmannanna umrætt kvöld hlutgerir konur, gerir lítið úr minnihlutahópum eins og fötluðum og samkynhneigðum á afar grófan, niðurlægjandi og særandi hátt. 

Viðhorfin sem orðin opinbera eru í algeru ósamræmi við markmið hreyfingar okkar og getum við því ekki annað en mótmælt þeim hástöfum og harmað.

Við munum fylgjast náið með næstu útspilum forsætisnefndar og hugsanlega siðanefndar Alþingis og væntum þess að aðgerðir sem gripið verður til séu í samræmi við alvarleika málsins.