Skip to main content

Forsetabréf maí 2022

 Melstað, maí 2022

Mikið lifandi skelfingar ósköp var gaman að hitta ykkur kæru systur í Ólafsvík. Ég naut hverrar stundar sem við áttum þar saman. Allur umbúnaður yfir helgina var gerður af svo mikilli vandvirkni og fagmennsku, kæru Snæfellssystur, takk fyrir.
Það má segja að eftir og með Landsambandsfundinum hafi sumarið komið í huga mínum og veðurfarslega séð á mínu landssvæði og er gott til þess að vita að hitastigið fari nú hækkandi og að við getum átt gott sumar í sál og sinni og ,,valið að vaxa” af eigin verðleikum og byggja okkur upp eftir allt sem á undan er gengið.

Ég vil þakka systrum sem gáfu kost á sér í embætti og voru kosnar á Landsambandsfundinum. Vegna breytinga á lögum munuð þið taka við ykkar embættum 1. janúar 2023. Systur sem fara úr embættum gera það frá 31. desember 2022. Þakkir til ykkar fyrir ykkar störf í okkar þágu. Undanskilin er laganefnd: hún tekur strax til starfa. Ég vil þakka fráfarandi laganefnd fyrir þeirra störf þær hafa svo sannarlega lagt grunninn og verður nú lagt kapp á að fara yfir ábendingar frá klúbbsystrum og ljúka því.
Vinnuhópur var skipaður á Landsambandsfundinum til þess að fara yfir drög að lögum og reglugerðum Soroptimistasambands Íslands með tilliti til athugasemda sem bárust frá systrum. Hópin skipa Hafdís Karlsdóttir verkefnastjóri hópsins Kópavogsklúbbi, Þórdís Bjarnadóttir Hafnafjarðarklúbbi, Erla Svanhvít Árnadóttir Bakka og Seljaklúbbi, Kristjana Björnsdóttir Austurlandsklúbbi, og Ásgarður Kjartansdóttir Reykjavíkurklúbbi. Auk þess vinna með hópnum þær systur sem kosnar voru í laganefnd, þær Margrét Helgadóttir Hafnafjarðarklúbbi og Sigríður Hjaltadóttir Við Húnaflóa. Enn vantar okkur eina systur í Laganefnd og er mikilvægt að hún sé lögfræðingur, ef einhver er þarna úti og brennur í áhuganum að taka þátt í störfum laganefndar, þá vinsamlega hafðu samband.

Með nýjum forseta SIE koma nýjar áherslur þar sem nú er búið að ákveða þema 16 daga átaksins (25. nóvember til 10. desember) en það verður "Read the Signs". Það verða gefin út  7 myndbönd á ensku, þar er fjallað er um hvernig þekkja má einkenni ofbeldis í samböndum. Grafík og efni verður gefið út í maí þannig það verður hægt að undirbúa átakið fyrr en áður hefur verið. Textin kemur á ensku og í kjölfarið verður tekið til við að þýða efnið og gera það aðgengilegt fyrir systur. Inni á okkar vef undir Verkfærakistunni eru myndbönd sem Kvennaathvarfið lét framleiða á sýnum tíma og við kostuðum þýðingu yfir á pólsku. Nú er ástæða til að horfa á þau aftur.

Þegar líður að 19. júní, Kvennréttindadegi Íslands hefur skapast sú hefð að stjórn SIÍ bjóði fyrverandi forsetum í kaffisamsæti í Hamraborg 10 og að sjálfsögðu látum við verða af því.

Sendifulltrúafundur verður haldinn 25. – 26. júní í Belgíu, til fundarins fara Rannveig Thoroddsen og Ragnheiður Gunnbjörnsdóttir. Tveimur dögum fyrr fer fram Growth Academy og mun Sigríður Kr. Gísladóttir verðandi 2. forseti sækja það námskeið ásamt sendifulltrúum.

Norrænir vinadagar verða haldnir í Kalmar, Svíþjóð, 23. – 25. september 2022

Haustfundur verður haldinn á Hótel Laugarbakka 1. október 2022

Minni á notendanafn og lykilorð að vefnum okkar soroptimist.is: systur/allar og einnig að setja inn efni á facebook síðuna, þannig gerum við hana lifandi og skemmtilega.

Með systrakveðju inn í sumarið

Guðrún Lára