Skip to main content

Forsetabréf mars 2022

Melstað, mars 2022

Með sorg í hjarta skrifa ég ykkur systur.

Það er átakanlegt að fylgjast með því sem er að gerast í Úkraínu nú á okkar tímum. Ég hugsa til þeirrar angistar sem manneskjurnar þurfa að þola. Og ég spyr, getum við systur komið til hjálpar?
María Björk Ingvadóttir, talskona Soroptimista á Íslandi, sat fund fyrir hönd SIÍ þann 1. mars ásamt 28 Soroptimistasystrum víðsvegar í Evrópu. Búið er að hrinda af stað stað verkefnum til að aðstoða konur og börn á flótta undan innrásinni í Úkraínu. Eins og við er að búast hvílir mest á herðum nágrannaríkja eins og Póllandi, Moldavíu, Slóvakíu og Rúmeníu, sem hafa fengið þúsundir flóttamanna til sinna borga og bæja. En þau eru ekki öll vel í stakk búinn til hjálparstarfs, sértaklega er skortur á matvælum og lyfjum í Moldavíu. Þá eru klúbbarnir fimm í Úkraínu að gera allt það sem þeir geta til hjálpar, en ekki er talið óhætt að senda fé til þeirra, því bankar eru lokaðir og enginn veit hvar þeir fjármunir lenda. 

Það er því margt að varast og þarf að ígrunda vel hvað kemur konum best.

Aðrir klúbbar víðsvegar um Evrópu eru að undirbúa komu flóttafólks til sinna landa og virðast Soroptimistar í Suður-Svíþjóð vera komnar lengst í undirbúningi, búnar nú þegar að hrinda af stað mikilli söfnun og fá til liðs við sig bæði sveitarfélög og fagfólk til starfa. Þær eru sjálfbærar hvað varðar fjármagn. 

Vegna þeirra hindrana sem settar hafa verið upp á að senda fjármuni milli landa var það niðurstaða stjórnarfundar að neyðarsjóður SIE væri best til þess fallinn að halda utan um það sem myndi safnast meðal klúbba og sambanda og deila því út eftir því sem færi gefst, og þeim þörfum sem breytast stundum hratt. Hjá neyðarsjóðnum er yfirsýnin, þar er þekkingin og við treystum því að þessu sé best fyrir komið þar. 

Stjórnin ítrekar að við erum rétt að byrja að gera okkur grein fyrir vandanum, og hann á eftir að aukast og breiðast út alla álfuna og því mikilvægt að klára ekki allt fé og orku núna, heldur nýta það skynsamlega og undirbúa okkur í líkingu við það sem sænsku systur okkar eru að gera. Hlutverk Soroptimista á Íslandi gæti orðið mikilvægt þegar konur og börn frá Úkraínu koma hingað sem flóttafólk. Næsti fundur um málið er fimmtudaginn 3. mars og verða fluttar fréttir inn á Facebooksíðu Soroptimista jafnóðum og þær berast og snúa að Soroptimistum. 

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er haldinn hátíðlegur á heimsvísu þann 8. mars n.k. dagurinn markar ákall til aðgerða til að flýta fyrir kynjajöfnuði. Soroptimistar fylkja sér um þennan dag en yfirskrift hans þetta árið kemur að venju frá UN Women og er #BreakTheBias #VíkkumViðhorfin. Til að svara spurningu minni hér í upphafi langar mig í tilefni af 8. mars að hvetja ykkur systur til að bregðast skjótt við og sameinast um að hver klúbbur leggi fram fjárupphæð kr. 100.000 í neyðarsjóð SIE vegna Úkraínu. Stjórnin var sammála um að halda á lofti neyð loftslagsflóttakvenna en hvetja til að setja málefni flóttafólks frá Úkraínu á dagskrá þennan dag með því að leggja málefnum flóttakvenna og -barna nú lið. Söfnunarfé á að leggja inn á 0319-13-701113 kt 551182-0109. Nú er brýn þörf á að koma systrum til hjálpar.

Eyrún Ingvadóttir tengiliður fyrir SNLA minnir okkur á að umsóknarfrestur fyrir þátttöku í norræna leiðtoganámskeiðinu rennur út 15.mars. Enn hafa ekki borist margar umsóknir, og hún hvetur ykkur til að kíkja betur í kringum ykkur eftir ungum stúlkum sem vilja efla leiðtogafærni sína. Einnig er sjálfsagt að stúlkur sem hafa sótt um áður og ekki komist að, fái hvatningu til að sækja um á ný. Leiðtoganámskeiðið verður haldið á Bifröst 26. júní – 1. júlí n.k. fyrir konur á aldrinum 20 – 30 ára. Námskeiðið fer fram á ensku og er konunum að kostnaðarlausu. Best er ef Soroptimistaklúbbur mælir með umsækjanda, en það er ekki skilyrði.

Landsambandsfundur er helgina 22. – 24. apríl í Ólafsvík. Hugsið tímalega fyrir gistingu.

Sendifulltrúafundur verður haldinn 25. – 26. júní í Belgíu.

Norrænir vinadagar verða haldnir í Kalmar, Svíþjóð, 23. – 25. september 2022.

Ég minni á lokaðan vef Soroptimista www.soroptimist.is - Til að komast inn á lokaðan vef er notendanafn systur og lykilorð allar. Minni einnig á fésbókina Soroptimistasamband Íslans

Með systrakveðju

Guðrún Lára Magnúsdóttir